Krambúðar Jónsmessumót 25. júní

Þá er það fyrsta golfmót sumarsins sem fram fer föstudaginn 25. júní kl. 20:00.

Glæsilegir vinningar og útdráttarvinningar frá Krambúðinni / Samkaup. Skráning er hafin á Golfbox.

Við hlökkum til að sjá ykkur.

Golfmót sumarsins

Þá liggur fyrir með golfmót sumarsins. Skráningar á mótin munu fara fram í gegnum golfbox.

Þetta verður frábært sumar hjá okkur.

Vinnudagur 8. maí og rástímaskráning

Frá formanni

Kæru félagsmenn, gleðilegt sumar!

Það styttist í opnun vallarins og verður að segjast eins og er að völlurinn kemur mjög vel undan vetri, enda veturinn búinn að vera nokkuð mildur. Vinnudagur er orðin fastur liður á vorin hjá GD en hann er að þessu sinni fyrirhugaður þann 8.maí. Við hefjum daginn klukkan 10:00. Vallarnefndin útdeilir verkefnum sem eru margvísleg að vanda; sanda flatir, setja út tunnur, reisa við bekki, setja út merkingar, hreinsa glompur, gróðursetja og ýmis önnur verk sem nefndin telur mikilvægt vinna. Vonumst við að sjá ykkur sem flest þennan dag en þess má geta að á vinnudeginum í fyrra var met mæting og voru verkin unnin af miklum dugnaði og  móð. Við þökkum öllum þeim sem komu þá og lögðu okkur lið. Að vinnudegi loknum verða hamborgarar og drykkir í boði.

Í vor verður tekin upp rástímaskráning hjá okkur í GD. Þetta er fyrirkomulag sem all flestir golfklúbbar eru með og að sögn afar ánægðir með. Félagsmenn munu geta skráð sig með allt að 4 daga fyrirvara en aðrir kylfingar geta pantað með tveggja daga fyrirvara. Það er því um að gera fyrir félagsmenn að kynna sér betur golfboxið og alla þá möguleika sem það býður upp á. Þeir sem mæta án þess að vera skráðir þurfa að bíða ef einhver er skráður á rástíma, því rástímaskráning hefur forgang. Kúlustandurinn verður fjarlægður þar sem hann er nú orðinn barn síns tíma.  Ef einhver er í vafa hvernig á að skrá sig erum við í stjórn GD boðin og búin að leiðbeina eftir bestu getu.

Hlökkum til að sjá ykkur á vinnudeginum.

Bestu kveðjur,

Bryndís

Aðalfundur Dalbúa 26. nóvember verður fjarfundur

 Kæru félagar Aðalfundur sem auglýstur var þann 26.nóvember verður fjarfundur að þessu sinni þar sem fjöldatakmörkun miðast enn við 10 manns.

Fjarfundur gefur félagsmönnum tækifæri til þess að vera með á fundinum og hafa atkvæðisrétt um þau mál sem lögð vera fyrir á fundinum.

Vinsamlegast sendið tölvupóst á dalbui@dalbui.is til þess að staðfesta veru ykkar á fundinum. Þeir sem staðfesta komu sína fá sendan hlekk á fundinn þegar nær dregur.

Kærar kveðjur, f.h. stjórnar, Bryndís Scheving, formaður GD

Takk fyrir frábært sumar

Ágætu Dalbúar

Nú haustar á okkar fallega landi sem þýðir eitt fyrir okkur í Golfklúbbnum Dalbúa, lokun vallarins. Um liðna helgi mættu nokkrir vaskir sveinar til þess að aðstoða mig við frágang á vellinum. Sorptunnur voru fjarlægðar af vellinum, teigmerkin flottu með nöfnum þeirra kvenna sem fóstra teigana sett í geymslu, vökvunarkerfið tekið inn ásamt fjarlægðarstikum og teigmerkingum og sitthvað fleira. Golfvöllurinn er því kominn í vetrarbúning með vetrarteigum og flötum. Það er gert til þess að hlífa þessum viðkvæma hluta vallarins eins og kostur er og gefa ykkur félagsmönnum tækifæri til þess að spila á vellinum eins lengi og veður leyfir.

Munið bara að ,,tía“ upp til þess að hlífa grasinu sem úr þessu fer að verða afar viðkvæmt fyrir kylfunum. Sumarið leið furðu fljótt við leik og störf. Ásókn á völlinn okkar var mjög mikil og oft það mikil um helgar að boltarennan var smekkfull af golfboltum og biðin þ.a.l. oft ansi löng eftir að komast á teig. Flestir tóku því með bros á vör, sérstaklega þar sem veðrið lék oftar en ekki við okkur í Miðdalnum. Það er von mín að þið hafið notið sumarsins vel og haft margar ánægjustundir á golfvellinum okkar góða. Hlakka til að hitta ykkur hress og kát á nýju golfári.

Kærleiks kveðjur til ykkar, Bryndís Scheving, formaður GD

Lokamót Dalbúa með einhverju óvæntu

Þar sem sumri er farið að halla og stutt eftir af golftímabilinu langar okkur í stjórninni að hafa mót fyrir félagsmenn laugardaginn 19.09.2020. Ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00.

Það væri gaman að hitta sem flesta, spila léttan og líflegan golfhring og enda daginn á grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Að þessu sinni verður golfmótið 9 holu punktamót og eiga því allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Við endum daginn á grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Vegleg verðlaun. Bara dregið úr skorkortum.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á þetta síðasta mót sumarsins og gera sér glaðan dag saman!

Allar nánari upplýsingar eru á golf.is

Nánari upplýsingar á golf.is eða í golfskála Dalbúa í Miðdal.