Meistaramótið okkar verður 5. – 6. júlí. Við munum bjóða upp á þrjá flokka fyrir konur og karla. Ræst verður út á 1. teig föstudaginn 5. júlí kl. 14:00 og laugardaginn 6. júlí frá 10:00.
Búið er að panta gott veður og reiknum með skemmtilegri helgi.
Stefnum svo að því að vera svo með húllumhæ að úrslitum loknum á laugardeginum. Matur og verð fyrir hann verður auglýst síðar.
Nú er komið að Jónsmessumótinu okkar skemmtilega þar sem spilaðar verða 9 holur og eitthvað gott svo sett á grillið að móti loknu. Mótið verður föstudaginn 21. júni.
Matur/grill + drykkur að loknu móti er innifalinn í mótsgjaldinu.
Mótið hefst kl 20.00 og verður ræst út á öllum teigum og eru keppendur beðnir um að skrá sig á netinu og mæta tímanlega á keppnisdegi. Skráning og frekari upplýsingar er að finna á golfbox: GolfBox Tournament
Kristal heilsumót Dalbúa mótið fór fram laugardaginn 8. júní. Þetta var fyrsta mót sumarsins. Hitastigið hefði mátt vera hærra og lognið í upphafi meira en sólin og keppnisskapið hélt á okkur hita.Mótið var haldið í samstarfi við Ölgerðina sem er einn af samstarfsaðilum okkar.
Keppt var í punktakeppni karla og kvenna þar sem hámarksforgjöf var 28 fyrir karla og 36 fyrir konur.Veglegir vinningar voru veittir fyrir fyrstu þrjú sætin bæði í karla- og kvennaflokki í boði Ölgerðarinnar, auk þess sem veitt voru verðlaun fyrir lengsta upphafshögg karla og kvenna á 3. braut og fyrir að vera næst holu í upphafshöggi á 5/14 og 8/17 holum. Einnig var dregið úr skorkortum þeirra sem höfðu ekki unnið til verðlauna.
Þökkum öllum sem tóku þátt í mótinu fyrir flottan dag og óskum öllum vinningshöfum til hamingju. Sérstakar þakkir skilum við til Ölgerðarinnar fyrir þeirra framlag.
Þá er komið að fyrsta móti sumarsins í samstarfi við einn af samstarfsaðilum Golfklúbbsins Dalbúa, Ölgerðin Egill Skallagrímsson. Mótið verður laugardaginn 8. júní og ræsum við út kl. 10:00. Við sjáumst hress og kát.
Ræst verður út á öllum teigum og eru keppendur beðnir um aðskrá sig á netinu og mæta tímanlega á keppnisdegi.
Það var fín mæting á vinnudegi hjá okkur laugardaginn 18. maí þar sem nýir og eldri félagar mættu og tóku til hendinni. Helgina áður mættu svo nokkrir félagar og tóku til í skálanum. Takk kærlega fyrir ykkar framlag. Við fengum svo að hitta Siggu Dóru Matthíasdóttur sem verður með Katrínu okkar í skálanum í sumar.
Enn liggur ekki fyrir hvenær við opnum völlinn formlega en það styttist á það og við munum láta ykkur vita. Eyjólfur vallarstjóri man ekki eftir jafn góðu ástandi á grínum á vellinum í upphafi sumars.
Þetta sumar verður gott hjá okkur á Dalbúa og við hlökkum til að taka á móti ykkur.
Við í Golfklúbbnum Dalbúa ætlum að vera með vinnudag laugardaginn 18. maí. Á vinnudegi verða verkefnin þau sömu og við þekkjum frá fyrri vinnudögum. Mæting kl. 10:00 og við reiknum með að klára í kringum 14:00.
Vallarnefndin okkar mun eins og áður skipuleggja það sem gera þarf en það væri afar ánægjulegt að sjá ykkur sem flest þennan dag, því margar hendur vinna létt verk.
Sérstaklega væri gaman að sjá nýja félagsmenn en þeir hafa á þessum degi tækifæri til að kynnast félagsmönnum og mynda tengsl sín á milli.
Að loknum vinnudegi verður eitthvað gott í gogginn fyrir vinnumenn/konur og eitthvað fljótandi með.