Opnum inn á flatir

Búið er að slá völlinn og verður opnað inn á flatirnar á morgun. Völlurinn skartar sínu fegursta og veðrið alveg ágætt. Spáin er fín fyrir helgina, hlýtt og þurrt.

Verið velkomin, heitt á könnunni og kalt í kælinum!

Gleðilegt sumar! – Vinnudagur framundan.

Ágætu Dalbúar, gleðilegt sumar!

Það styttist í opnun vallarins og verður að segjast eins og er að völlurinn kemur mjög vel undan vetri. Það er hvergi kalblettur sjáanlegur sem er talsvert annað en síðastliðið vor. Undanfarna daga hefur völlurinn grænkað dag frá degi. Það er því mikið tilhlökkunarefni hjá okkur fyrir komandi golfsumri og sérstaklega í ljósi þess að við eigum 30 ára afmæli núna í sumar.

Eyjólfur og Anthony er nú þegar byrjaðir að gera og græja eitt og annað á vellinum og er þar helst að nefna stækkun á 9.flöt, en þeir eru langt komnir með þá framkvæmd. Um þessa helgi verður farið í það að sá grasfræjum í flatir og bera áburð á flatir og brautir.

En það eru mörg handtökin framundan hjá okkur og viljum við því biðla til sem flestra félagsmanna sem sjá sér fært að mæta á vinnudag laugardaginn 4.maí. Við stefnum á að byrja á verkefnunum milli 11.30 og 12.00 og er vallarnefndin búin að útbúa verkefnalista fyrir okkur þannig að engum ætti að leiðast 😊

Það verður hressing í boði að vinnudegi loknum og ekki úr vegi að einhverjir kjósi að taka eins og einn golfhring að honum loknum. 

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Kveðja, stjórnin.

Fréttir af klúbbnum

Ágætu Dalbúar,

Nú fer nýtt golfsumar að nálgast, þrátt fyrir risjótta tíð um stundir, og því vert að huga að því sem framundan er hjá klúbbnum okkar.

Það ber auðvitað hæst að á þessu sumri verða þrjátíu ár liðin frá því að klúbburinn okkar var stofnaður, og er fyrirhugað að halda upp á þau tímamót með ýmsum hætti. Þá eru ýmsar framkvæmdir í bígerð; nú er hafinn undirbúningur að stækkun á flötinni á 9. braut, þá er fyrirhugað að breyta upphafshluta 1. brautar þannig að hún verði að hluta leikin í brekkunni neðan núverandi brautarstæðis. Einnig er stefnt að því að allur kargi milli brauta verði sleginn niður í leikhæð, sem ekki hefur verið reyndin síðustu ár. Loks er fyrirhugað að sameina flatir 4. og 7. brautar, sem liggja nánast saman, og gera þannig stóra tvöfalda flöt fyrir báðar brautirnar, líkt og sjá má á ýmsum golfvöllum.

Á síðasta ári voru kynntar hugmyndir um tvöföldun teiga á öllum brautum þannig að hægt yrði að leika völlinn sem 18 holu völl (sbr. tvöfalda teiga á Setbergsvelli í Hafnarfirði). Að loknu sumri komst stjórn og aðalfundur þó að þeirri niðurstöðu að fresta yrði slíkum verkefnum því mikilvægasta fjárfesting þessa árs yrði að vera í nýrri kargasláttuvél, þar sem sú sem hefur verið notuð var á síðasta snúning sumarið sem leið. Nú er unnið að kaupum slíkrar vélar, og stefnt að því að hún verði komin í þjónustu klúbbsins fyrir vorið.

Allir sem léku völlinn á síðast sumri voru sammála um að þrátt fyrir erfiðan vetur og vor hafi tekist að koma vellinum í mjög gott form, einkum þegar leið á sumarið, og vöxtur tók við sér eftir hart vor. Mikil ánægja var með umsjón Anthony Karls Flores og félaga hans, einkum Eyjólfs Óla Jónssonar, með vellinum á liðnu ári, og mikið fagnaðarefni að hann mun halda áfram að hafa umsjón með vellinum á komandi sumri.

– Þá mun ég undirrituð halda áfram að annast rekstur skálans líkt og síðasta sumar, og hlakka til að sjá ykkur í Miðdal og þiggja kaffisopa fyrir eða eftir góðan hring á vellinum.  

Rekstrarstaða klúbbsins hefur verið þröng undanfarin ár, en batnaði nokkuð á síðasta ári, og hefur klúbburinn því átt fyrir útgjöldum vetrarins (hita- og rafmagnskostnaði o.fl.) og til undirbúnings vorverkanna. Í ljósi stöðunnar var ákveðið á aðalfundi Dalbúa 29. nóvember sl. að hafa félagsgjöldin á þessu afmælisári óbreytt frá liðnu ári. Sjá má hver gjöldin eru inn á vefsíðu klúbbsins (www.dalbui.is), en gjaldið fer eftir þeim leiðum sem valdar eru (almennt félagsgjald, hjónagjald o.s.frv.). Innheimtan verður með sama sniði og á síðasta ári, og verða gjalddagar nú þrír og dreifast á 1. apríl, 1. maí og 20. maí. Verða greiðsluseðlar vegna félagsgjaldsins settir inn í heimabanka félaga í Dalbúa á næstunni, og er miðað við gjöld síðasta árs við niðurröðun, t.d. að tekið sé tillit til þess þegar félagar eru með annan golfklúbb sem aðalklúbb. Ef einhverjar misfellur verða á þessu er félögum bent á að snúa sér til gjaldkera, Eiríks Þorlákssonar (thorlakssone@gmail.com) og verður greiðsla síðasta gjalddaga þá leiðrétt eins og við á.

Í ljósi reynslu síðustu ára og þess að um afmælisár er að ræða stefnir stjórnin að því að golfmót sumarsins verði með örlítið breyttu sniði og vonandi „félagavænni“. Rætt hefur verið um að breyta fyrirkomulagi einhverra móta, en sú hugmynd hefur m.a. komið upp að hafa sum þeirrra 9-13 holu mót. Félagar hafa verið að kalla eftir fjölbreyttara fyrirkomulagi og getur það orðið skemmtileg nýbreytni hjá okkur.

Þá ber að nefna að endurskoðaðar golfreglur gengu í gildi 1. janúar 2019, og fela þær í sér talsverðar breytingar frá því sem verið hefur, eins og mörg ykkar hafið eflaust tekið eftir. Stefnt er að því að bjóða upp á fræðslufund eða námskeið fyrir félagsmenn vegna hinna nýju reglna við upphaf golfsumarsins, og verður það kynnt nánar síðar.

Ég hlakka til að starfa með ykkur á komandi afmælisári og hvet ykkur til að láta í ykkur heyra; nú þegar vetur er að síga á seinni hlutann má reikna með að margir séu farnir að hugsa sér til hreyfings og munda kylfurnar að nýju.

Kær kveðja,
Bryndís Scheving
formaður stjórnar.

Áramótakveðjur

Kæru kylfingar!

Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir árið sem var að líða.

Komandi ár hjá okkur í GD er 30 ára afmælisár klúbbsins og verður eitt og annað gert af því tilefni. Stjórn GD er byrjuð að leggja drög að atburðum sumarsins sem verður ábyggilega gott! Fylgist því vel með fréttum frá okkur þegar nær dregur.

Við hlökkum til að hitta ykkur hress og kát þegar líða fer á vorið og eiga með ykkur enn eitt skemmtilegt golfár.

Bestu kveðjur,
stjórn GD

Breytingar á golfreglum

Viðamiklar breytingar á golfreglunum taka gildi frá og með áramótum 2019.  
20 mikilvægustu breytingarnar á golfreglunum eru eftirfarandi:

1.   Leitartími – Styttur úr 5 mínútum í 3 mínútur.

2. Bolti hreyfist við leit – Lagður aftur á fyrri stað (vítalaust).

3. Sokkinn bolti – Vítalaus lausn utan brauta.

4. Mæling þegar bolti er látinn falla – Lengsta kylfan (önnur en pútter) notuð. 

5. Bolti látinn falla – Úr hnéhæð, í stað axlarhæðar.

6. Ekki leyfilegt að taka sér stöðu á rangri flöt– Vítalaus lausn.

7. Leikmaður slær bolta í sjálfan sig eða útbúnað sinn – Vítalaust.

8. Bolti tvísleginn – Talið sem eitt högg (vítalaust).

9. Tilfallandi snerting á sandi í glompu leyfð.

10. Fjarlægja má lausung hvar sem er.

11. Taka má lausn úr glompu gegn tveimur vítahöggum.

12. Vatnstorfærur kallast vítasvæði.

13. Leyfilegt að snerta vatn eða jörð innan vítasvæðis.

14. Bolti hreyfist á flöt eftir að hafa verið merktur, lyft og lagður niður aftur

       – Lagður aftur á fyrri stað, vítalaust.

15. Bolti hreyfður fyrir slysni á flötinni – Lagður aftur á fyrri stað, vítalaust.

16.  Lagfæra má svo til allar skemmdir á flötum.

17. Ekki má leggja kylfu niður til að aðstoða við miðun.

18. Kylfuberi má ekki aðstoða við miðun.

19. Leyfilegt að hafa flaggstöngina í holunni þegar púttað er.

20. Bolti sem er skorðaður við flaggstöng telst í holu.

Aðalfundur Golfkúbbs Dalbúa 29. nóvember 2018

FUNDARBOÐ:

AÐALFUNDUR GOLFKLÚBBS DALBÚA

Íþróttamiðstöðinni Laugardal (í Reykjavík) A-salur
fimmtudaginn 29. nóvember 2018 kl. 19:30

Dagskrá:
Samkvæmt 16. gr. laga félagsins:

Aðalfundur kýs fundarstjóra og ritara eftir tillögu stjórnar.

  1. Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári.
  2. Kynning á endurskoðuðum ársreikningi félagsins.
  3. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning og hann borinn upp til samþykktar.
  4. Afgreiðsla tillagna til lagabreytinga.
  5. Tillögur sem borist hafa teknar til umræður og afgreiðslu.
  6. Ákveðið árgjald og önnur gjöld fyrir næsta starfsár.
  7. Kosning stjórnar og varamanna í stjórn, sbr. 10. gr.
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
  9. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
  10. Önnur mál.

Tillögur til lagabreytinga þurfa að berast stjórn félagsins. Komi fram tillögur að lagabreytingum verða þær kynntar á heimasíðu félagsins – www.dalbui.is

Breytingar verða á stjórn eins og gerist í öllum félögum.  Formaður hefur ákveðið að gefa áfram kost á sér til formennsku. Eins og ávallt hvetur stjórn félagsins félagsmenn til að gefa kost á sér til stjórnar- og nefndarstarfa fyrir næsta starfsár.  Ef þið hafið áhuga eða vitið af áhuga á slíku vinsamlegast hafið samband við formann félagsins, Bryndísi Scheving, með tölvupósti (bryndisscheving@gmail.com) eða símleiðis (862 8995) sem allra fyrst.

Ný stjórn mun m.a. skipa í mótanefnd, vallarnefnd, aganefnd og forgjafanefnd að loknum aðalfundi. Mikið hefur mætt á stjórnarmönnum þar sem erfiðlega hefur gengið að manna ofangreindar nefndir, og væri skemmtilegt ef fleiri tækju þátt í því starfi sem nefndirnar vinna, einkum á því afmælisári sem er fram undan. Fyrir klúbb eins og Dalbúa er mikilvægt að sem flestir félagar taki þátt í starfinu og gefi kost á sér í stjórn eða nefndir.  Reynslan sýnir að því betur sem nefndir eru mannaðar því minni tíma tekur að sinna þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að vinna.

Hér með er skorað á félagsmenn að mæta á aðalfund félagsins, fylgjast með hvernig hefur gengið og taka þátt í frekari uppbyggingu golfklúbbsins, m.a. með því að gefa kost á sér í nefndar- eða stjórnarstörf, því margar hendur vinna létt verk. Eins og fyrr segir verður ekki skipað í nefndir á aðalfundi – það er verkefni stjórnar eftir fundinn – en þar gefst gott tækifæri til að ræða málin og efla félagsandann.

Að lokum vil ég sem fráfarandi formaður þakka ykkur öllum fyrir frábært samstarf á liðnum árum og ítreka að í sameiningu munum við halda áfram að gera góðan klúbb enn betri í framtíðinni.

f.h. stjórnar Golfklúbbs Dalbúa
Bryndís Scheving
formaður.

Vinnudagur 6. október 2018

Ágætu Dalbúar,
Síðasti vinnudagur ársins verður á morgun 6. október kl. 11.
Léttar veitingar verða í boði fyrir vinnufólk.

Nú er framundan að búa völlinn undir veturinn, t.d. með því að loka flötum og teigum, gata allar flatir og teiga, taka saman lausamuni o.s.frv. Völlurinn verður í vetur lokaður fyrir almenna umferð, en félagsmenn geta leikið hann í samræmi við reglur um vetrargolf þegar færi gefst, og til að gera það mögulegt verða búnar til einfaldar vetrarflatir.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna í Miðdal og taka þátt í léttum verkum, auk þess að einfaldlega að hittast og fá sér síðast kaffisopa sumarsins í skálanum áður en honum verður lokað.

Stjórnin

Lok golfvertíðar í Miðdal

Ágætu félagar í Dalbúa,

Nú er komið að lokum golfvertíðarinnar á vellinum í Miðdal sumarið 2018.

Eftir harðan vetur og síðan kalt og blautt vor var völlurinn í viðkvæmu ástandi í upphafi sumars, en fór sífellt batnandi eftir því sem á leið. Fyrir tilstilli mikillar vinnu umsjónaraðila var völlurinn með besta móti þegar leið á sumarið, og sláttur hefur sjaldan verið meiri eða betri, bæði á brautum og karga, enda höfðu margir félagsmenn og gestir orð á að það hefði aldrei gengið betur að finna boltana sína til að halda áfram skemmtilegum leik.

Meðal haustverka á vellinum er að allur hár kargi milli brauta (t.d. milli 5. og 6. brautar-, 6. og 7. brauta o.s.frv.) hefur nú verið sleginn niður og fjarlægður, og stefnt er að því að þessi svæði verði slegin sem venjulegur kargi næsta sumar. Það segir sitt um hversu erfið þessi svæði hafa verið kylfingum síðustu ár að við þennan slátt komu í leitirnar hátt á þriðja hundrað golfboltar, sem verða boðnir kylfingum til endurkaups næsta sumar – að sjálfsögðu undir heitinu „boltar með reynslu“!

Nú er framundan að búa völlinn undir veturinn, t.d. með því að loka flötum og teigum, gata allar flatir og teiga, taka saman lausamuni o.s.frv. Völlurinn verður í vetur lokaður fyrir almenna umferð, en félagsmenn geta leikið hann í samræmi við reglur um vetrargolf þegar færi gefst, og til að gera það mögulegt verða búnar til einfaldar vetrarflatir.

Stefnt er að vinnudegi á vellinum helgina 6.-7. október. Ákvörðun um vinnudaginn verður tekin eftir því sem veðurspá segir til um til að velja betri daginn, og verður tilkynning um vinnudag og tíma birt á vefsíðu klúbbsins (www.dalbui.is) á fimmtudag.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna í Miðdal og taka þátt í þessum léttu verkum, auk þess að einfaldlega að hittast og fá sér síðast kaffisopa sumarsins í skálanum áður en honum verður lokað.

Aðalfundur Dalbúa verður síðan haldinn síðari hluta nóvember, og í kjölfarið hefst undirbúningur starfsins á næsta ári, en sumarið 2019 verða 30 liðinn frá því að golfklúbburinn Dalbúi var stofnaður, sem gefur tilefni til veglegrar dagskrár yfir sumarið.

Stjórnin.

Lokamót Dalbúa laugardaginn 15. sept. 2018

Kæru félagsmenn!

Þar sem sumri er farið að halla og stutt eftir af golftímabilinu langar okkur í stjórninni að hafa mót fyrir félagsmenn laugardaginn 15. september. Það væri gaman að hittast, spila léttan og líflegan golfhring og enda daginn á grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Að þessu sinni verður golfmótið 9 holu punktamót og eiga því allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Við endum daginn á grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Vegleg verðlaun eru fyrir 1. 2. og 3. sæti. Einnig verða veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg á 3. braut og nándarverðlaun á 5. og 8. braut.

Verð: 5.500 (golf + grill)

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á þetta síðasta mót sumarsins og gera sér glaðan dag saman!

Allar nánari upplýsingar eru á golf.is

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

Kveðja,
stjórnin

GD / Síminn golfmot – úrslit

Síminn / GD golfmótið fór fram um helgina – 25. ágúst.
Úrslit voru eftirfarandi:

1. sæti – DJ Villz – Vilmundur Þór Jónasson / Viktor Jóhannesson 63 högg nettó
2. sæti – Mulligan á fyrstu – Bragi Dór Hafþórsson / Sigurður Orri Hafþórsson 65 högg nettó
3. sæti – Góður & Betri – Pétur Már Sigurðsson / Örn Ólafsson 67 högg nettó

Lengsta teighögg karla – Sigurður Hafsteinsson
Lengsta teighögg kvenna – Helena S. Kristinsdóttir

Næstur holu 5 – Sigurður Hafsteinsson
Næstur holu 8 – Guðmundur Gunnarsson

Þökkum Símanum fyrir góðan stuðning og einnig frábærum þátttakendum sem voru í góðum gír í frábæru veðri.