Styrktarmót Dalbúa 2019

Ágætu Dalbúar,

Eins og ykkur er kunnugt um var afmælismót Dalbúa haldið 17. ágúst sl. í tilefni þess að liðin eru þrjátíu ár frá því að klúbburinn okkar var stofnaður. Leikin var 18 holu punktakeppni með fullri forgjöf, og var ræst út af öllum teigum samtímis kl. 11.00. 

Þátttaka í mótinu var meiri en hefur verið í öðrum mótum sumarsins, og voru tveir ráshópar ræstir af stað á flestum brautum, en alls voru tæplega 60 keppendur skráðir til leiks. Sigurvegarar í keppninni voru þau Þórður Heiðar Jónsson í karlaflokki  og Guðríður Pálsdóttir í kvennaflokki, og óskum við þeim til hamingju með sigurinn.

Að kvöldi keppnisdags var síðan efnt til afmælisveislu, þar boðið var upp á grill og meðlæti, og keppendur og aðrir góðir gestir skemmtu sér ágætlega. Nokkrir félaga okkar voru heiðraðrir með silfurmerki félagsins fyrir gott starf fyrir klúbbinn í gegnum árin, og umsjónarmönnum vallarins voru veitt sérstök starfsmerki sem sérstaka viðurkenningu fyrir hversu vel hefur tekist til við völlinn síðustu tvö sumur. Klúbbnum bárust einnig góðar gjafir frá helstu styrktaraðilum okkar (Grafíu, RSÍ og VM) sem verða nýttar til að efla starfið enn frekar á komandi árum. 

– Var mikil ánægja með fagnaðinn og góður hugur í félagsmönnum.

Nú er komið að næsta móti sumarsins í Miðdal, en það er Styrktarmót Símans og Dalbúa, sen haldið hefur verið árlega um langt skeið, en allur ágóði af því rennur til uppbyggingar á vellinum í Miðdal og til að styrkja starfsemi klúbbsins. Keppt er um veglega vinninga sem Síminn leggur til motsins. Leikformið er Texas og ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00 og eru keppendur beðnir að skrá liðið saman á rástíma (skráning rástíma er þó að eins til skráningar, þar sem allir verða ræstir út á sama tíma).

– Allir keppendur fá teiggjöf fyrir mót og hamborgara að hætti hússins að móti loknu í boði Good Burger.

Við viljum hvetja sem flesta félagsmenn til að taka þátt í þessu skemmtilega móti á vellinum okkar í Miðdal, en að því loknu er aðeins eitt mót eftir á sumrinu, þ.e. lokamót Dalbúa, sem haldið verður 14. september. 

Sjáumst á vellinum
Með bestu golfkveðjum,

Stjórn Dalbúa.

Afmælismót Dalbúa – 30 ára

30 ára afmæli GD 
Afmælismót og veisla 

Golfklúbburinn Dalbúi verður 30 ára í sumar, og af því tilefni verður haldið sérstakt afmælismót laugardaginn 17. ágúst, þar sem leikið verður 18 holu punktamót með fullri forgjöf, en með því fyrirkomulagi eiga allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Úrslitin í mótinu verða síðan tilkynnt í afmælisveislu sem hefst kl. 18.00, en boðið verður upp á grill og meðlæti í tilefni afmælisins, þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Vegleg verðlaun eru fyrir fyrir góðan árangur í afmælismótinu, og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna í mótið og taka með sér gesti.

Mótið hefst kl. 11.00 og verður ræst út af öllum teigum samtímis. Mótsgjald: 5.000,- kr. (golf + afmælisveisla).

Hafi einhverjir hug á að mæta í afmælisveisluna en hafa ekki tækifæri til að taka þátt í mótinu sjálfu, er það einnig í boði, og kostar miðinn 4.000 kr. Er viðkomandi bent á að hafa sem fyrst samband við formann klúbbsins, Bryndísi Scheving (bryndisscheving@gmail.com) til að skrá sig.

Stjórn GD áskilur sér rétt til að takmarka fjölda þátttakenda, reynist það nauðsynlegt.

Golfferðir með Úrval-Útsýn

 Við bjóðum upp á frábærar haustferðir fyrir félagsmenn á Hacienda del Alamo og El Plantio Golf Resort á Spáni í samstarfi við Úrval Útsýn. Frábærar gistingar, flottir golfvellir, allt innifalið (El Plantio) og ótakmarkað golf. Góður valkostur fyrir kylfinga af öllum getustigum.  Sjá nánar hér…

Opna Laugarvatns Fontana mótið 2019

Opna Laugarvatns Fontana mótið

27. júlí. laugardagur klukkan 10 – Opna Laugarvatns Fontana mótið- punktamót – 18 holur

Upplýsingar

Þá er komið að einu skemmtilegasta móti sumarsins í samstarfi við einn af aðalstyrktaraðilum Dalbúa, Laugarvatn Fontana. Keppt verður í punktakeppni karla og kvenna með forgjöf. Hámarksleikforgjöf karla verður 24 og hámarksleikforgjöf kvenna 28. 

Mótið hefst kl. 10:00 stundvíslega og verður ræst út af öllum teigum. Keppendur eru beðnir um að skrá sig á netinu og mæta tímanlega á keppnisdegi. 

ATH: Keppendur sem vilja spila saman í holli eru beðnir um að skrá sig saman á rástíma en munið að rástíminn er einungis til skráningar.

Veglegir vinningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin bæði í karla- og kvennaflokki í boði Laugarvatn Fontana, auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir lengsta upphafshögg karla og kvenna á valinni braut og næst holu á par 3 brautum vallarins.

Verðlaun í karla- og kvennaflokkum:

1. verðlaun: Fjölskyldukort í Laugarvatn Fontana, gildir í eitt ár fyrir tvo fullorðna og fjögur börn.

2. verðlaun: Einstaklingskort í Laugarvatn Fontana, gildir í eitt ár.

3. verðlaun: 6 miða kort í Laugarvatn Fontana.

Verð: 4.500.- 

Skraning á www.golf.is

Kvennamót 2019 úrslit og myndir

Kvennamót Dalbúa var haldið laugardaginn 20. júlí í alveg frábæru veðri. Sólin skein glatt og hitinn var 23 gráður. Konur höfðu á orði að það þyrfti nú ekkert að fara til Spánar, þetta væri bara betra en það. 

Eins og undanfarin ár voru veglegir vinningar frá Lavera (K. Kjartansson) og einnig voru teiggjafir frá Lavera. Þessar snyrtivörur eru lífrænt vottaðar og afar góðar.

Konur skemmtu sér vel í skemmtilegu 9 holu móti, mikið talað og hlegið! Súpa og brauðbollur runnu ljúft niður að leik loknum sem konur snæddu úti á palli.

Vinningshafar eru:

  1. sæti: Inga Dóra Konráðsdóttir
  2. sæti: Guðbjörg Ingólfsdóttir
  3. sæti: Vilborg Teitsdóttir

Lengsta teighögg á 3. braut:  Jóna Hjálmarsdóttir

Golfklúbburinn Dalbúi þakkar þeim konum sem tóku þátt í mótinu fyrir mjög góðan dag!

Hér eru myndir frá deginum.

Barna golfnámskeið

Barna golfnámskeið var haldið hjá okkur laugardag og sunnudag undir stjórn Önnu Díu Erlingsdóttur íþróttakennara. Áhugasamir og duglegir krakkar tóku þátt og lærðu heilmargt um golfíþróttina. Kennslunni lauk með 4 holu móti ⛳️

Meistaramót 2019 – myndir

Meistaramót

Meistaramót Dalbúa var haldið í blíðskaparveðri og góðum félagsskap! Klúbbmeistarar þetta árið eru hjónin Böðvar Þórisson og Petrína Freyja Sigurðardóttir. Óskum við þeim innilega til hamingju með titlana.