Vinnudagur

Við minnum á vinnudaginn, laugardaginn 16.maí klukkan 10.00. Veðurspáin er okkur hagstæð og verkefnin næg. Væri gaman að sjá sem flesta félagsmenn og konur. Stefnt er að opnun vallarins í kjölfarið og því ekk úr vegi að spila eins og einn hring að loknu góðu dagsverki.

Hlýjar og bjartar kveðjur, stjórn GD

Meðlimatilboð til Grikklands í vor

Kæri félagar,

Icegolf býður öllum meðlimum í þínum klúbb 30.000 kr. afslátt á vikuferðum í apríl til hins óviðjafnlega Costa Navarino í Grikklandi.

Þarna er öll aðstaða fyrsta flokks , tveir stórkostlegir golfvellir, fimm stjörnu lúxus hotel ásamt ótal annarri afþreyingu .

Ef þeir bóka með kóðanum KLUBBUR þá fá þeir þennan afslátt inn á ferðina þeirra. 

Vikuferðir okkar í apríl eru á eftirfarandi dögum:

4, 11, 18, 25 apríl.

Við vonum með þessu tilboði að sem flestir fá að upplifa þennan óviðjafnlega stað sem Costa Navarino er.  Ef þið eruð með æfingahóp (10 eða fleiri), sem hefur áhuga á að nýta sér þetta tilboð, þá bjóðum við einum PGA kennara með hópnum í fría gistingu og golf.  Vinsamlega hafið samband ef þið viljið bóka æfingahóp.

Sjá nánar í viðhengi.

Aðalfundur fimmtudaginn 5. desember 2019

FUNDARBOÐ:
AÐALFUNDUR GOLFKLÚBBS DALBÚA

Íþróttamiðstöðinni Laugardal (í Reykjavík) A-salur
fimmtudaginn 5. desember 2019, kl. 19:30

Dagskrá aðalfundar:
• Kosning fundarstjóra og fundarritara
• Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári
• Kynning á endurskoðuðum ársreikning félagsins
• Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikningar lagðir fram til samþykktar
• Lagabreytingar
• Ákveðið árgjald og önnur gjöld fyrir næsta starfsár
• Kosning stjórnar og varamanna í stjórn, sbr.10.gr.
o Kosning formanns
o Kosnir 2 aðalmenn til tveggja ára
o Kosnir 2 varamenn til eins árs
• Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara
• Lögð fram fjárhagsáætlun næsta starfsárs til samþykktar
• Önnur mál

Um hefðbundin aðalfundarstörf verður að ræða. Farið verður yfir rekstrarreikning klúbbsins á starfsárinu 2019 ásamt skýrslu stjórnar um starfsemi ársins. Ekki eru lagðar til neinar lagabreytingar að þessu sinni.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.

Stjórn Golfklúbbsins Dalbúa

Uppfærsla! Lokamót Dalbúa 14. september frestað til 21. september vegna hversu veðurspá er slæm.

Ágætu Dalbúar,

Eins og þið hafið eflaut tekið eftir er nú farið að hausta, og það þýðir að það dregur að lokum golfvertíðarinnar. 

Lokamót Dalbúa á þessu afmæliári verður haldið laugardaginn 14. september. Að þessu sinni verður um að ræða 9 holu punktamót og eiga því allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Við endum síðan stuttan keppnisdag á léttri grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Til að gera þetta mót sérstakt hefur verið ákveðið að leikið verði frá nýjum teigum, þ.e. frá nokkrum stöðum á brautum vallarins þar sem hugmyndir eru um að setja upp nýja teiga, þannig að hægt væri að leika völlinn sem 18. holu völl án þess að leika tvisvar á sömu teigum.

Með þessari nýjung er hægt að kynnast þessum hugmyndum betur, og átta sig á hvernig hver braut mun líta út frá „nýju sjónarhorni.“ (Vegna þessara breytinga verður árangur á mótinu að sjálfsögðu ekki reiknaður til breytinga á forgjöf þátttakenda.) 

Það verður einnig gerð sú breyting að veitt verða verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sæti í blönduðum flokki, þ.e. karla og kvenna saman. Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir lengsta teighögg á 3. braut og nándarverðlaun á 5. og 8. braut.

Ræst verður út á öllum teigum klukkan 11:00.

Verð: 6.000 kr. (golf + grill)

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á þetta síðasta mót sumarsins, og mega gjarna taka með sér gesti til að gera sér glaðan dag saman undir lok golfsumarsins!

Sjáumst á vellinum,

Með bestu golfkveðjum,
Stjórn Dalbúa.

                                                            

Styrktarmót Dalbúa 2019

Ágætu Dalbúar,

Eins og ykkur er kunnugt um var afmælismót Dalbúa haldið 17. ágúst sl. í tilefni þess að liðin eru þrjátíu ár frá því að klúbburinn okkar var stofnaður. Leikin var 18 holu punktakeppni með fullri forgjöf, og var ræst út af öllum teigum samtímis kl. 11.00. 

Þátttaka í mótinu var meiri en hefur verið í öðrum mótum sumarsins, og voru tveir ráshópar ræstir af stað á flestum brautum, en alls voru tæplega 60 keppendur skráðir til leiks. Sigurvegarar í keppninni voru þau Þórður Heiðar Jónsson í karlaflokki  og Guðríður Pálsdóttir í kvennaflokki, og óskum við þeim til hamingju með sigurinn.

Að kvöldi keppnisdags var síðan efnt til afmælisveislu, þar boðið var upp á grill og meðlæti, og keppendur og aðrir góðir gestir skemmtu sér ágætlega. Nokkrir félaga okkar voru heiðraðrir með silfurmerki félagsins fyrir gott starf fyrir klúbbinn í gegnum árin, og umsjónarmönnum vallarins voru veitt sérstök starfsmerki sem sérstaka viðurkenningu fyrir hversu vel hefur tekist til við völlinn síðustu tvö sumur. Klúbbnum bárust einnig góðar gjafir frá helstu styrktaraðilum okkar (Grafíu, RSÍ og VM) sem verða nýttar til að efla starfið enn frekar á komandi árum. 

– Var mikil ánægja með fagnaðinn og góður hugur í félagsmönnum.

Nú er komið að næsta móti sumarsins í Miðdal, en það er Styrktarmót Símans og Dalbúa, sen haldið hefur verið árlega um langt skeið, en allur ágóði af því rennur til uppbyggingar á vellinum í Miðdal og til að styrkja starfsemi klúbbsins. Keppt er um veglega vinninga sem Síminn leggur til motsins. Leikformið er Texas og ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00 og eru keppendur beðnir að skrá liðið saman á rástíma (skráning rástíma er þó að eins til skráningar, þar sem allir verða ræstir út á sama tíma).

– Allir keppendur fá teiggjöf fyrir mót og hamborgara að hætti hússins að móti loknu í boði Good Burger.

Við viljum hvetja sem flesta félagsmenn til að taka þátt í þessu skemmtilega móti á vellinum okkar í Miðdal, en að því loknu er aðeins eitt mót eftir á sumrinu, þ.e. lokamót Dalbúa, sem haldið verður 14. september. 

Sjáumst á vellinum
Með bestu golfkveðjum,

Stjórn Dalbúa.

Afmælismót Dalbúa – 30 ára

30 ára afmæli GD 
Afmælismót og veisla 

Golfklúbburinn Dalbúi verður 30 ára í sumar, og af því tilefni verður haldið sérstakt afmælismót laugardaginn 17. ágúst, þar sem leikið verður 18 holu punktamót með fullri forgjöf, en með því fyrirkomulagi eiga allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Úrslitin í mótinu verða síðan tilkynnt í afmælisveislu sem hefst kl. 18.00, en boðið verður upp á grill og meðlæti í tilefni afmælisins, þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Vegleg verðlaun eru fyrir fyrir góðan árangur í afmælismótinu, og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna í mótið og taka með sér gesti.

Mótið hefst kl. 11.00 og verður ræst út af öllum teigum samtímis. Mótsgjald: 5.000,- kr. (golf + afmælisveisla).

Hafi einhverjir hug á að mæta í afmælisveisluna en hafa ekki tækifæri til að taka þátt í mótinu sjálfu, er það einnig í boði, og kostar miðinn 4.000 kr. Er viðkomandi bent á að hafa sem fyrst samband við formann klúbbsins, Bryndísi Scheving (bryndisscheving@gmail.com) til að skrá sig.

Stjórn GD áskilur sér rétt til að takmarka fjölda þátttakenda, reynist það nauðsynlegt.

Golfferðir með Úrval-Útsýn

 Við bjóðum upp á frábærar haustferðir fyrir félagsmenn á Hacienda del Alamo og El Plantio Golf Resort á Spáni í samstarfi við Úrval Útsýn. Frábærar gistingar, flottir golfvellir, allt innifalið (El Plantio) og ótakmarkað golf. Góður valkostur fyrir kylfinga af öllum getustigum.  Sjá nánar hér…

Opna Laugarvatns Fontana mótið 2019

Opna Laugarvatns Fontana mótið

27. júlí. laugardagur klukkan 10 – Opna Laugarvatns Fontana mótið- punktamót – 18 holur

Upplýsingar

Þá er komið að einu skemmtilegasta móti sumarsins í samstarfi við einn af aðalstyrktaraðilum Dalbúa, Laugarvatn Fontana. Keppt verður í punktakeppni karla og kvenna með forgjöf. Hámarksleikforgjöf karla verður 24 og hámarksleikforgjöf kvenna 28. 

Mótið hefst kl. 10:00 stundvíslega og verður ræst út af öllum teigum. Keppendur eru beðnir um að skrá sig á netinu og mæta tímanlega á keppnisdegi. 

ATH: Keppendur sem vilja spila saman í holli eru beðnir um að skrá sig saman á rástíma en munið að rástíminn er einungis til skráningar.

Veglegir vinningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin bæði í karla- og kvennaflokki í boði Laugarvatn Fontana, auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir lengsta upphafshögg karla og kvenna á valinni braut og næst holu á par 3 brautum vallarins.

Verðlaun í karla- og kvennaflokkum:

1. verðlaun: Fjölskyldukort í Laugarvatn Fontana, gildir í eitt ár fyrir tvo fullorðna og fjögur börn.

2. verðlaun: Einstaklingskort í Laugarvatn Fontana, gildir í eitt ár.

3. verðlaun: 6 miða kort í Laugarvatn Fontana.

Verð: 4.500.- 

Skraning á www.golf.is