Ágætu Dalbúar
Nú haustar á okkar fallega landi sem þýðir eitt fyrir okkur í Golfklúbbnum Dalbúa, lokun vallarins. Um liðna helgi mættu nokkrir vaskir sveinar til þess að aðstoða mig við frágang á vellinum. Sorptunnur voru fjarlægðar af vellinum, teigmerkin flottu með nöfnum þeirra kvenna sem fóstra teigana sett í geymslu, vökvunarkerfið tekið inn ásamt fjarlægðarstikum og teigmerkingum og sitthvað fleira. Golfvöllurinn er því kominn í vetrarbúning með vetrarteigum og flötum. Það er gert til þess að hlífa þessum viðkvæma hluta vallarins eins og kostur er og gefa ykkur félagsmönnum tækifæri til þess að spila á vellinum eins lengi og veður leyfir.
Munið bara að ,,tía“ upp til þess að hlífa grasinu sem úr þessu fer að verða afar viðkvæmt fyrir kylfunum. Sumarið leið furðu fljótt við leik og störf. Ásókn á völlinn okkar var mjög mikil og oft það mikil um helgar að boltarennan var smekkfull af golfboltum og biðin þ.a.l. oft ansi löng eftir að komast á teig. Flestir tóku því með bros á vör, sérstaklega þar sem veðrið lék oftar en ekki við okkur í Miðdalnum. Það er von mín að þið hafið notið sumarsins vel og haft margar ánægjustundir á golfvellinum okkar góða. Hlakka til að hitta ykkur hress og kát á nýju golfári.
Kærleiks kveðjur til ykkar, Bryndís Scheving, formaður GD