Laufey og Jónína sigruðu Jónsmessumót GD og Krambúðarinnar

Jónsmessumót golfklúbbsins Dalbúa og Krambúðarinnar fór fram föstudaginn 24. júní kl. 20:00. Rétt áður en leikur var hafinn braust blessuð sólin fram og fylgdi okkur inn í kvöldið. Leikið var eftir Greensome fyrirkomulagi.  Þátttakendum var boðið upp á grillaða hamborgara fyrir mótið og mæltist það vel fyrir.  Um 40 aðilar voru skráðir í mótið.

Úrslit mótsins voru þannig eftir útreikninga að Laufey Erlendsdóttir og Jónína Magnúsdóttir voru í 1. sæti, í 2. sæti voru svo Hrönn Magnúsdóttir og Guðmundur Skúli Hartvigsson og í 3. sæti voru Sindri Snær Oddgeirsson og Ómar Sindri Jóhannsson . Önnur úrslit voru svo að Jónína Magnúsdóttir var með lengsta högg kvenna á þriðju braut en Sindri Snær Oddgeirsson var með lengsta högg hjá körlum. Heiðrún Haukdóttir var svo næst holu á 5. braut (1,32m) og Sæmundur Árnason á 8. holu (5.8m). Krambúðin sá um verðlaun fyrir liðin í þremur efstu sætunum en Ölgerðin var með aðra vinninga fyrir lengstu högg og næst holu.  Ölgerðin sá einnig um smá hressingu í fljótandi formi sem leikmenn gátu gripið með sér.

Stjórn og mótanefnd GD þakkar öllum sem tóku þátt og þakkar Krambúðinni, sem var aðal styrktaraðili mótsins kærlega fyrir stuðninginn og Ölgerðinni fyrir þeirra framlag.

Við minnum svo á Meistaramót GD sem fram fer 16 og 17. júlí.

Jónsmessumót Dalbúa og Krambúðarinnar  – skráningu lýkur á fimmtudag

Það stefni í flott golfveður og fína mætingu hjá okkur í Jónsmessumóti Dalbúa og Krambúðarinnar á föstudagskvöldið og verður gaman að hitta ykkur öll og eiga með ykkur skemmtilega kvöldstund.  Skráningu í mótið lýkur í eftirmiðdaginn á morgun.

Við ætlum að bjóða keppendum upp á grillaða hamborgara frá 18:30 til 19:30, afhenda skorkort og útskýra leikform um 19:45, og ræsa svo út á öllum teigum kl. 20:00.  Verðlaunaafhending og mótslok verður svo í kringum miðnættið.

Mikið svakalega verður þetta skemmtilegt hjá okkur.

Skráning er á golfbox:   GolfBox Tournament

 

Golfreglufundur verður haldinn laugardaginn 4. júní kl. 10:00 í golfskálanum hjá Dalbúa

Þórður Ingason R&A golfdómari skýrir allar helstu golfreglurnar og hvernig þeim er beitt þegar tekin er lausn úr vanda. Það er á ábyrgð hvers kylfings að kunna golfreglurnar og haldgóð þekking á þeim getur hjálpað til við að fækka höggum og lækka forgjöf.

Það vefst fyrir ýmsum að breyta höggum í punkta og mun Þórður skýra hvernig best er að halda utan um skor á holu þegar höggum er breytt í punkta með forgjöf. Ennfremur verður farið yfir önnur atriði eins og staðarreglur og keppnisskilmála og ýmis keppnisform.

Oft vakna líka spurningar um framkvæmd mótshaldara á hvernig jafntefli er leyst og hvaða reglur gilda þegar keppt er um að vera næstur holu, með lengsta teighögg o.s.frv.

Öll þessi atriði fáið þið tækifæri til að ræða og fræðast um n.k. laugardag, 4. júní kl. 10:00 í golfskálanum hjá Dalbúa

VIÐ HVETJUM OKKAR KYLFINGA TIL AÐ MÆTA.

Golfmót sumarsins

Kæru golfarar

Þá liggur fyrir með golfmót sumarsins. Skráningar á mótin munu fara fram í gegnum golfbox.

Þetta verður frábært sumar hjá okkur en mótin okkar voru vel sótt í fyrra og heppnuðust vel og völlurinn okkar er í góðu standi og vel hirtur.

Vinnudagur GD 7. maí

Kæru félagar!

Við í GD ætlum að hafa vinnudag þann 7.maí 2022. Á vinnudegi verða verkefnin þau sömu og við þekkjum frá fyrri vinnudögum. Mæting kl. 10:00.

Vallarnefndin mun eins og áður skipuleggja það sem gera þarf. Það væri því afar ánægjulegt að sjá ykkur sem flest þennan dag, því margar hendur vinna létt verk. Sérstaklega væri gaman að sjá nýja félagsmenn, þeir hafa á þessum degi tækifæri til að kynnast félagsmönnum og mynda tengsl sín á milli. Að loknum vinnudegi verður eitthvað gott í gogginn fyrir vinnumenn/konur og eitthvað fljótandi með.