Það stefnir í fína þátttöku í Símamóti Dalbúa á morgun og er rétt að minna spilara á það að vera tímanlega á svæðinu þannig að hægt sé að koma öllum út á réttum tíma en ræst verður á öllum teigum kl. 10:00.
Stórskemmtilegt mót með glæsilegum verðlaunum í boði Símans. Leikformið er Texas Scramble. Ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00 og eru keppendur beðnir að skrá liðið saman á rástíma (skráning rástíma er þó að eins til skráningar, þar sem allir verða ræstir út á sama tíma).
Vegleg verðlaun í boði Símans, en auk þess verða veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg karla og kvenna á valinni braut og fyrir upphafshögg næst holu á par 3. brautum vallarins. Loks verður veglegur vinningur dreginn úr skorkortum keppenda (aðeins þeirra sem ekki hafa þegar unnið til verðlauna) Allur ágóði af mótinu rennur til uppbyggingar á vellinum Í Miðdal og til að styrkja starfsemi klúbbsins.
Skráning Golfbox lýkur 29.08.2020 kl 09:59. Nánari upplýsingar á golf.is eða í golfskála Dalbúa í Miðdal.
Opna Laugarvatns Fontana mótið fór fram laugardaginn 15. ágúst.
Mótið er haldið í samstarfi við einn af aðal styrktaraðilum Dalbúa, Laugarvatn Fontana.
Keppt var í punktakeppni karla og kvenna með forgjöf.
Veglegir vinningar voru veittir fyrir fyrstu þrjú sætin bæði í karla- og kvennaflokki í boði Laugarvatn Fontana, auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir lengsta upphafshögg karla og kvenna á valinni braut og fyrir að vera næst holu í upphafshöggi á par 3 brautum vallarins.
Þökkum öllum sem tóku þátt í mótinu fyrir góðan dag og vinningar verða sendir í pósti.
Um leið og við minnum á skemmtilega Fontana golfmótið okkar næsta laugardag kl. 10:00 minnum við alla á að huga að eigin sóttvörnum og koma frísk heim.
Þau leiðu mistök voru gerð þegar tekin voru saman úrslit í höggleik á meistaramóti Dalbúa að rangt var lesið út úr niðurstöðu sem tekin var út á golfbox.
Hið rétta er að hjá konunum var í öðru sæti Petrína Freyja Sigurðardóttir en ekki Anna Svandís Helgadóttir. Búið er að tilkynna þessum góðu félögum um þetta og ganga allir sáttir frá boði og hefur þetta verið leiðrétt í tilkynningu eftir mótið.
Mótanefnd biður þær Petru og Önnu og félaga í GD innilega afsökunar á þessum mistökum.
Skemmtilegasta golfmótið okkar fer fram laugardaginn 15. ágúst. Ræst er á öllum teigum kl. 10:00.
Um er að ræða 18 holu punktamót þannig að allir eiga jafna möguleika á að vinna til fjölmargra vinninga sem Fontana, einn af styrktaraðilum Dalbúa, er með á boðstólnum.
Lavera kvennamót Dalbúa fór fram sunnudaginn 19. júlí en vegna slæmrar veðurspár var mótinu frestað frá laugardegi til sunnudags.
Hólmfríður M. Konráðsdóttir sigraði mótið en Guðbjörg Ingólsdóttir varð í öðru sæti og Halldóra Elíasdóttir í því þriðja. Önnur úrslit voru svo þannig að Inga Konráðsdóttir var með lengsta högg á þriðju braut, Hólmfríður M. Konráðsdóttir næst holu á þriðju braut og Klara Lísa Hervaldsdóttir næst holu á 8. braut. Allar konur fengu svo glæsilegar teiggjafir. Einnig var dregið úr skorkortum um Lavera vörur. Í lok móts var svo í boði að kaupa súpu á hagstæðu verði sem Bryndís formaður hafði útbúið.
Stjórn Golfklúbbsins Dalbúa og mótanefnd þakkar öllum þessum frábæru konum sem tóku þátt fyrir komuna og óskar öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.
Að lokum þá þökkum við umboðsaðila Lavera kærlega fyrir glæsilega og veglega vinninga.