Barna golfnámskeið

Barna golfnámskeið var haldið hjá okkur laugardag og sunnudag undir stjórn Önnu Díu Erlingsdóttur íþróttakennara. Áhugasamir og duglegir krakkar tóku þátt og lærðu heilmargt um golfíþróttina. Kennslunni lauk með 4 holu móti ⛳️

Meistaramót 2019 – myndir

Meistaramót

Meistaramót Dalbúa var haldið í blíðskaparveðri og góðum félagsskap! Klúbbmeistarar þetta árið eru hjónin Böðvar Þórisson og Petrína Freyja Sigurðardóttir. Óskum við þeim innilega til hamingju með titlana.

Golfnámskeið – Golfnámskeið ⛳️

Golfklúbburinn Dalbúi í Miðdal verður með golfnámskeið fyrir börn í sumar. Námskeiðið verður í tvo daga, laugardaginn 13. júlí klukkan 10.00 – 13.00 og sunnudaginn 14 .júlí klukkan 10.00- 13.00. Seinni daginn verður mót hjá þátttakendum þar sem spilaðar verða 4 holur.

Verð: 2.000.- Innifalið í námskeiðinu er nesti og grillaðar pylsur á lokadeginum.

Þeir sem eiga golfkylfur mega gjarnan koma með þær en golfklúbburinn á nokkur barna golfsett sem hægt er að fá lánuð.

Munið að koma klædd eftir veðri 😊

Kennari á námskeiðinu er Anna Día Erlingsdóttir, íþróttakennari og reyndur golfleiðbeinandi.

Nánari upplýsingar og skráning hjá Bryndísi Scheving, formanni GD í síma 8628995 eða á netfanginu: bryndisscheving@gmail.com

Jónsmessumót 2019 – úrslit

Sigurverar Jónsmessumóts Dalbúa 2019

Jónsmessumót GD fór fram í blíðskaparveðri 22. júní, og lék góður hópur félagsmanna og gesta 18 holur eftir Greensome-fyrirkomulagi.

Reyndist mótið hin besta skemmtun fyrir þátttakendur, sem nutu sín vel við góðar aðstæður, þar sem völlurinn var í prýðilegu standi, og veðrið hlýtt og gott.

Sigurvegarar í mótinu voru þeir Oddgeir Sæmundsson og Ragnar Þórisson; í öðru sæti Guðríður Pálsdóttir og Viktor S. Guðbjörnsson; í þriðja sæti Hlöðver Jóhannsson og Jónína Jónsdóttir. Þeir Oddgeir og Ragnar hlutu m.a. í verðlaun veglega skildi sem Hrafn Jónsson, félagsmaður GD, hafði hannað sérstaklega fyrir mótið.

Jónsmessumót

Laugardagur 22. júní

Fyrirkomulag Greensome -18 holur.
Það er komið að hinu stórskemmtilega Jónsmessumóti Dalbúa. Við bregðum út af vananum að þessu sinni og spilum 18 holu Greensome. Þetta er skemmtilegur og léttur leikur sem fer þannig fram að tveir spila saman í liði, báðir slá upphafshögg og er betri boltinn leikinn. Sá sem átti verri boltann í upphafshögginu slær betri boltann, við næsta högg slær sá sem átti betri boltann í upphafi og svo koll af kolli. Þetta er hraður leikur en fjörugur.

Við lofum skemmtilegu móti í frábærum félagsskap!
Ræst verður út af öllum teigum stundvíslega klukkan 10.
ATH: Keppendur sem vilja spila saman í holli eru beðnir um að skrá sig saman á rástíma en munið að rástíminn er einungis til skráningar.
Skráning á golf.is
Verð: 3.000.-

Sól og gleði

Hér er 12 stiga hiti enn sem komið er og fer hækkandi. Völlurinn alveg frábær og kátir kylfingar að leika sér. Verið velkomin 😁

Opnum inn á flatir

Búið er að slá völlinn og verður opnað inn á flatirnar á morgun. Völlurinn skartar sínu fegursta og veðrið alveg ágætt. Spáin er fín fyrir helgina, hlýtt og þurrt.

Verið velkomin, heitt á könnunni og kalt í kælinum!

Gleðilegt sumar! – Vinnudagur framundan.

Ágætu Dalbúar, gleðilegt sumar!

Það styttist í opnun vallarins og verður að segjast eins og er að völlurinn kemur mjög vel undan vetri. Það er hvergi kalblettur sjáanlegur sem er talsvert annað en síðastliðið vor. Undanfarna daga hefur völlurinn grænkað dag frá degi. Það er því mikið tilhlökkunarefni hjá okkur fyrir komandi golfsumri og sérstaklega í ljósi þess að við eigum 30 ára afmæli núna í sumar.

Eyjólfur og Anthony er nú þegar byrjaðir að gera og græja eitt og annað á vellinum og er þar helst að nefna stækkun á 9.flöt, en þeir eru langt komnir með þá framkvæmd. Um þessa helgi verður farið í það að sá grasfræjum í flatir og bera áburð á flatir og brautir.

En það eru mörg handtökin framundan hjá okkur og viljum við því biðla til sem flestra félagsmanna sem sjá sér fært að mæta á vinnudag laugardaginn 4.maí. Við stefnum á að byrja á verkefnunum milli 11.30 og 12.00 og er vallarnefndin búin að útbúa verkefnalista fyrir okkur þannig að engum ætti að leiðast 😊

Það verður hressing í boði að vinnudegi loknum og ekki úr vegi að einhverjir kjósi að taka eins og einn golfhring að honum loknum. 

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Kveðja, stjórnin.