Lok golfvertíðar í Miðdal

Ágætu félagar í Dalbúa,

Nú er komið að lokum golfvertíðarinnar á vellinum í Miðdal sumarið 2018.

Eftir harðan vetur og síðan kalt og blautt vor var völlurinn í viðkvæmu ástandi í upphafi sumars, en fór sífellt batnandi eftir því sem á leið. Fyrir tilstilli mikillar vinnu umsjónaraðila var völlurinn með besta móti þegar leið á sumarið, og sláttur hefur sjaldan verið meiri eða betri, bæði á brautum og karga, enda höfðu margir félagsmenn og gestir orð á að það hefði aldrei gengið betur að finna boltana sína til að halda áfram skemmtilegum leik.

Meðal haustverka á vellinum er að allur hár kargi milli brauta (t.d. milli 5. og 6. brautar-, 6. og 7. brauta o.s.frv.) hefur nú verið sleginn niður og fjarlægður, og stefnt er að því að þessi svæði verði slegin sem venjulegur kargi næsta sumar. Það segir sitt um hversu erfið þessi svæði hafa verið kylfingum síðustu ár að við þennan slátt komu í leitirnar hátt á þriðja hundrað golfboltar, sem verða boðnir kylfingum til endurkaups næsta sumar – að sjálfsögðu undir heitinu „boltar með reynslu“!

Nú er framundan að búa völlinn undir veturinn, t.d. með því að loka flötum og teigum, gata allar flatir og teiga, taka saman lausamuni o.s.frv. Völlurinn verður í vetur lokaður fyrir almenna umferð, en félagsmenn geta leikið hann í samræmi við reglur um vetrargolf þegar færi gefst, og til að gera það mögulegt verða búnar til einfaldar vetrarflatir.

Stefnt er að vinnudegi á vellinum helgina 6.-7. október. Ákvörðun um vinnudaginn verður tekin eftir því sem veðurspá segir til um til að velja betri daginn, og verður tilkynning um vinnudag og tíma birt á vefsíðu klúbbsins (www.dalbui.is) á fimmtudag.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna í Miðdal og taka þátt í þessum léttu verkum, auk þess að einfaldlega að hittast og fá sér síðast kaffisopa sumarsins í skálanum áður en honum verður lokað.

Aðalfundur Dalbúa verður síðan haldinn síðari hluta nóvember, og í kjölfarið hefst undirbúningur starfsins á næsta ári, en sumarið 2019 verða 30 liðinn frá því að golfklúbburinn Dalbúi var stofnaður, sem gefur tilefni til veglegrar dagskrár yfir sumarið.

Stjórnin.