Lok golfvertíðar í Miðdal

Ágætu félagar í Dalbúa,

Nú er komið að lokum golfvertíðarinnar á vellinum í Miðdal sumarið 2018.

Eftir harðan vetur og síðan kalt og blautt vor var völlurinn í viðkvæmu ástandi í upphafi sumars, en fór sífellt batnandi eftir því sem á leið. Fyrir tilstilli mikillar vinnu umsjónaraðila var völlurinn með besta móti þegar leið á sumarið, og sláttur hefur sjaldan verið meiri eða betri, bæði á brautum og karga, enda höfðu margir félagsmenn og gestir orð á að það hefði aldrei gengið betur að finna boltana sína til að halda áfram skemmtilegum leik.

Meðal haustverka á vellinum er að allur hár kargi milli brauta (t.d. milli 5. og 6. brautar-, 6. og 7. brauta o.s.frv.) hefur nú verið sleginn niður og fjarlægður, og stefnt er að því að þessi svæði verði slegin sem venjulegur kargi næsta sumar. Það segir sitt um hversu erfið þessi svæði hafa verið kylfingum síðustu ár að við þennan slátt komu í leitirnar hátt á þriðja hundrað golfboltar, sem verða boðnir kylfingum til endurkaups næsta sumar – að sjálfsögðu undir heitinu „boltar með reynslu“!

Nú er framundan að búa völlinn undir veturinn, t.d. með því að loka flötum og teigum, gata allar flatir og teiga, taka saman lausamuni o.s.frv. Völlurinn verður í vetur lokaður fyrir almenna umferð, en félagsmenn geta leikið hann í samræmi við reglur um vetrargolf þegar færi gefst, og til að gera það mögulegt verða búnar til einfaldar vetrarflatir.

Stefnt er að vinnudegi á vellinum helgina 6.-7. október. Ákvörðun um vinnudaginn verður tekin eftir því sem veðurspá segir til um til að velja betri daginn, og verður tilkynning um vinnudag og tíma birt á vefsíðu klúbbsins (www.dalbui.is) á fimmtudag.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna í Miðdal og taka þátt í þessum léttu verkum, auk þess að einfaldlega að hittast og fá sér síðast kaffisopa sumarsins í skálanum áður en honum verður lokað.

Aðalfundur Dalbúa verður síðan haldinn síðari hluta nóvember, og í kjölfarið hefst undirbúningur starfsins á næsta ári, en sumarið 2019 verða 30 liðinn frá því að golfklúbburinn Dalbúi var stofnaður, sem gefur tilefni til veglegrar dagskrár yfir sumarið.

Stjórnin.

Lokamót Dalbúa laugardaginn 15. sept. 2018

Kæru félagsmenn!

Þar sem sumri er farið að halla og stutt eftir af golftímabilinu langar okkur í stjórninni að hafa mót fyrir félagsmenn laugardaginn 15. september. Það væri gaman að hittast, spila léttan og líflegan golfhring og enda daginn á grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Að þessu sinni verður golfmótið 9 holu punktamót og eiga því allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Við endum daginn á grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Vegleg verðlaun eru fyrir 1. 2. og 3. sæti. Einnig verða veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg á 3. braut og nándarverðlaun á 5. og 8. braut.

Verð: 5.500 (golf + grill)

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á þetta síðasta mót sumarsins og gera sér glaðan dag saman!

Allar nánari upplýsingar eru á golf.is

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

Kveðja,
stjórnin

GD / Síminn golfmot – úrslit

Síminn / GD golfmótið fór fram um helgina – 25. ágúst.
Úrslit voru eftirfarandi:

1. sæti – DJ Villz – Vilmundur Þór Jónasson / Viktor Jóhannesson 63 högg nettó
2. sæti – Mulligan á fyrstu – Bragi Dór Hafþórsson / Sigurður Orri Hafþórsson 65 högg nettó
3. sæti – Góður & Betri – Pétur Már Sigurðsson / Örn Ólafsson 67 högg nettó

Lengsta teighögg karla – Sigurður Hafsteinsson
Lengsta teighögg kvenna – Helena S. Kristinsdóttir

Næstur holu 5 – Sigurður Hafsteinsson
Næstur holu 8 – Guðmundur Gunnarsson

Þökkum Símanum fyrir góðan stuðning og einnig frábærum þátttakendum sem voru í góðum gír í frábæru veðri.

Styrktarmót Dalbúa og Símans 25.08.2018

Stórskemmtilegt mót með glæsilegum verðlaunum í boði Símans.

Leikformið er Texas Scramble deilt með 3, þar sem hámarksforgjöf karla er 28 og hámarksforgjöf kvenna er 34; vallarforgjöf beggja keppenda er lögð saman og deilt í með þremur; keppnisforgjöf liðs getur þó ekki orðið hærri fyrir viðkomandi lið en þess keppanda sem er með lægri vallarforgjöfina

(Athugið: Ekki taka mark á forgjöfinni sem birtist við skráningu á golf.is, þar sem hún er ekki í takt við ofangreinda reikniformúlu).

Athugið: Ekki er hægt að vinna til verðlauna nema hafa löglega forgjöf.

Ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00 og eru keppendur beðnir að skrá liðið saman á rástíma (skráning rástíma er þó að eins til skráningar, þar sem allir verða ræstir út á sama tíma).

Allir keppendur fá teiggjafir ásamt hamborgara að hætti hússins að móti loknu í boði Símans.

Verðlaun:

Vegleg verðlaun í boði Símans, en auk þess verða veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg karla og kvenna á valinni braut og fyrir upphafshögg næst holu á par 3. brautum vallarins. – Loks verður veglegur vinningur dreginn úr skorkortum keppenda (aðeins þeirra sem ekki hafa þegar unnið til verðlauna)

Mótsgjald er 4.000 kr. á hvern þátttakanda, en þar sem um styrktarmót Dalbúa er að ræða þá er keppendum frjálst að greiða meira en mótsgjaldið. Þá býðst fyrirtækjum að styrkja klúbbinn og greiða 10.000 kr. fyrir keppnislið í sínu nafni.

Allur ágóði af mótinu rennur til uppbyggingar á vellinum Í Miðdal og til að styrkja starfsemi klúbbsins.

 

  1. Sæti: Fitbit Alta heilsuúr https://vefverslun.siminn.is/vorur/aukahlutir_new/lifstill/listill_gadget/fitbit_alta_hr_black_large/#pv_14443
  2. Sæti: Titleist derhúfa, FootJoy skópoki og Zipp þráðlaus hátalarihttps://vefverslun.siminn.is/vorur/aukahlutir_new/hatalarar/bluetooth_hatalarar/libratone_zipp_mini/#pv_14353
  3. Sæti: Titleist derhúfa, FootJoy skópoki og Orkukubburhttps://vefverslun.siminn.is/vorur/aukahlutir_new/lifstill/listill_gadget/fitbit_alta_hr_black_large/#pv_14443

Nándarverðlaun: Titleist derhúfa, FootJoy skópoki og PopSocket https://vefverslun.siminn.is//vorur/aukahlutir_new/hitt_thetta/popsocket/#pv_14059

Dregið úr skorkortum (muna að taka út þá sem lentu í verðlaunasætum
Video Dyrabjalla

https://vefverslun.siminn.is//vorur/aukahlutir_new/lifstill/listill_gadget/video_dyrabjalla_svort/

Orkukubbur
https://vefverslun.siminn.is/vorur/sumar_2018/xqisit_10400/#pv_13161

Meater þráðlaus grillhitamælir
https://vefverslun.siminn.is/vorur/sumar_2018/meater_maelir/#pv_14510

Úrslit í kvennamóti Dalbúa 2018

Lavera kvennamótið var haldið í dag í blíðskaparveðri. Sólin lét sjá sig konum til mikillar gleði og var hitinn um og yfir 18 ° gráður.

15 konur mættu til leiks og höfðu gaman að. Þær fóru allar sáttar heim með flottar snyrtivörur og sól í hjarta.

Úrslitin voru:

1. sæti Þórunn Jóna Hauksdóttir
2. sæti Rannveig Hjaltadóttir
3.sæti Bjarndís Lárusdóttir

Lengsta teighögg á 3.braut:
Berglind Ósk Geirsdóttir

Næst holu á 5.braut:
Sigurlaug J. Friðriksdóttir

Næst holu á 8.braut:
Kristín Mogensen

Kvennamót Dalbúa 2018

Kvennamót Dalbúa verður laugardaginn 11. ágúst klukkan 10.

Konur fjölmennum og skemmtum okkur saman í þessu flotta móti.
Spilaðar verða 9 holur (1 hringur). Allar konur fá flottar teiggjafir frá Lavera og vinningarnir eru mjög glæsilegir en þeir eru allir frá Lavera.

Lavera eru þýskar náttúrulegar og vottaðar lífrænar húðvörur sem notið hafa mikilla vinsælda í 30 ár!

Súpa og léttar veigar verða að leik loknum á sanngjörnu verði.
Skráning og nánari upplýsingar eru á golf.is

Meistaramót Dalbúa 2018 úrslit

  • Meistaramót Dalbúa 2018

Meistaramót Dalbúa fór fram laugardaginn 28. júlí og hófst í blíðskaparveðri kl. 10.00 um morguninn þegar fyrsti ráshópur var ræstur af stað, en eftir hádegi  varð nokkur úrkoma sem varð til þess að gera keppendum nokkuð erfiðara fyrir á vellinum, sem hefur tekið miklum framförum undanfarnar vikur.

Samkvæmt venju var leikinn höggleikur án forgjafar, bæði í karla-og kvennaflokkum, og hlaut sigurvegari í hvorum flokki titilinn klúbbmeistari Dalbúa 2018. Jafnframt voru  veitt sérstök verðlaun fyrir besta skor í höggleik með fullri forgjöf, og voru þessi verðlaun hugsuð til að gera keppni  jafnari og meira spennandi fyrir marga keppenda, sem áttu góða möguleika á að standa sig vel í þessum flokki.

Úrslitin urðu þau að klúbbmeistarar urðu þau Böðvar Schram í karlaflokki og Sigrún María Ingimundardóttir í kvennaflokki. Sigrún María var einnig með besta skor kvenna í höggleik með fullri forgjöf, en í karlaflokki var Eyjólfur Óli Jónsson með besta skorið í höggleik með fullri forgjöf.

Næsta mót á dagskrá Dalbúa verður haldið 11. ágúst n.k., en það er Lavera kvennamót Dalbúa.

Kvennamót Dalbúa hafa notið vaxandi vinsælda undanfarin ár, og nú er Lavera sérstakur styrktaraðili mótsins. Keppnin er punktakeppni með forgjöf, og spilaðar verða 9 holur (1 hringur). Félagskonur eru hvattar til að fjölmenna og taka með sér vinkonur og aðrar kátar konur til að halda uppi fjörinu.

Höggleikur karla:
1.sæti Böðvar Schram (102)
2.sæti Hafsteinn Daníelsson (105) 52
3.sæti Eyjólfur Óli Jónsson (105) 53
Höggleikur m. forgjöf
1.sæti Eyjólfur Óli Jónsson (81)
2.sæti Anthony Karl Flores (82)
3.sæti Böðvar Schram (85)
Höggleikur kvenna:
1.sæti Sigrún María Ingimundardóttir (95)
2.sæti Hafdís Ingimundardóttir (105)
3.sæti Bryndís Scheving (112)
Höggleikur m.forgjöf
1.sæti Sigrún María Ingimundardóttir (83)
2.sæti Bryndís Scheving (85)
3.sæti Hafdís Ingimundardóttir (88)

Meistaramót Dalbúa 2018

Ágætu Dalbúar,

Nú er komið að meistaramóti Dalbúa, sem verður leikið næsta laugardag 28. júlí, og hefst keppni kl. 10:00.

Í meistaramótinu verður samkvæmt venju leikinn höggleikur án forgjafar; keppt er bæði í karla- og kvennaflokkum og hlýtur sigurvegari í hvorum flokki titilinn klúbbmeistari Dalbúa 2018.

En jafnframt hinni hefðubundnu keppni verða veitt sérstök verðlaun fyrir besta skor í höggleik með fullri forgjöf bæði karla- og kvennaflokki. Með þessum sérstöku verðlaunum verður mótið jafnara og meira spennandi fyrir marga félagsmenn, þar sem fjöldi keppenda á góða möguleika á að standa uppi sem sigurvegari í þessum flokki.

Mótanefnd vonar að með þessari breytingu skrái sem flestir félagsmenn sig til keppni í mótinu og er hugmyndin sú að auka þátttökuna sem mest. Með þessari „auka-keppni“ þurfa félagsmenn ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki möguleika í hefðbundnum höggleik gegn þeim bestu, því með þessum hætti keppa allir miðað við eigin forgjöf og eiga því jafna möguleika á verðlaunum.

Mótsgjaldi er einnig stillt í hóf til að hvetja sem flesta til að skrá sig til keppni, og er að þessu sinni 2.000 kr.

Skráning í mótið fer fram á golf.is og lýkur föstudaginn 27. júlí kl. 18:00. Allir keppendur verða ræstir út á 1. teig frá kl. 10:00 að morgni, en upplýsingar um rástíma verða birtar á golf.is og í golfskálanum í Miðdal frá kl. 19.00 föstudaginn 27. júlí.

Það er von okkur að sem felstir félagsmenn noti tækifærið og skrái sig til að taka þátt í meistaramóti Dalbúa með þessu nýja fyrirkomulagi.

Nánari upplýsingar á dalbui.is.

Stjórnin

Tvöföldun teiga

Ágætu Dalbúar,

Eins og áður hefur komið fram er stefnt að því að breyta vellinum okkar í Miðdal með því að tvöfalda teiga við allar brautir, þannig að það verði hægt að spila völlinn sem 18 holu völl í framtíðinni. Til að gera þetta mögulegt þarf að byggja nýja teiga, sem bjóða í öllum tilvikum upp á að spila megi viðkomandi brautir með öðrum hætti en nú er. Hugmyndin er að hinir nýju teigar verði almennt framar en núverandi teigar (og stytti þar með brautirnar) en í öðrum tilvikum nokkru til hliðar við núverandi höggstefnu; loks verði byggðir sameiginlegir stórir teigar fyrir báðar par 3 brautirnar. Í öllum tilvikum ætti völlurinn að vera auðveldari viðureignar þegar upphafshögg verða slegin frá hinum nýju teigum.

Nú hafa verið reknir niður hælar á viðeigandi staði á vellinum til að merkja fyrir þeim teigum sem fyrirhugað er að byggja, og stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist nú síðsumars.

Félagsmönnum og öðrum sem leika völlinn næstu vikur er hér með bent á að skoða þessar fyrirhuguðu staðsetningar hinna nýju teiga, og endilega koma áleiðis til stjórnar mögulegum ábendingum um breytingar á fyrirliggjandi tillögum, ef mönnum sýnist svo. Hægt er að senda tölvupóst á dalbui@dalbui.is, gera athugasemdir hér á heimasíðunni eða á Facebook.

Stefnt er að því að hægt verði að taka hina nýju teiga í notkun á 30 ára afmælisári klúbbsins, þ.e. næsta sumar.

Jafnframt er vakin athygli á hugmyndum stækkun flatarinnar við 9. braut, sem gæti gjörbreytt því hvernig kylfingar reyna að nálgast takmarkið þar, þ.e. að ljúka leik með því að koma kúlunni til skila í holu hverju sinni.