Uppfærsla! Lokamót Dalbúa 14. september frestað til 21. september vegna hversu veðurspá er slæm.

Ágætu Dalbúar,

Eins og þið hafið eflaut tekið eftir er nú farið að hausta, og það þýðir að það dregur að lokum golfvertíðarinnar. 

Lokamót Dalbúa á þessu afmæliári verður haldið laugardaginn 14. september. Að þessu sinni verður um að ræða 9 holu punktamót og eiga því allir félagsmenn góða möguleika á verðlaunasætum!

Við endum síðan stuttan keppnisdag á léttri grillveislu í skálanum okkar þar sem tækifæri gefst til þess að spjalla og skemmta sér saman.

Til að gera þetta mót sérstakt hefur verið ákveðið að leikið verði frá nýjum teigum, þ.e. frá nokkrum stöðum á brautum vallarins þar sem hugmyndir eru um að setja upp nýja teiga, þannig að hægt væri að leika völlinn sem 18. holu völl án þess að leika tvisvar á sömu teigum.

Með þessari nýjung er hægt að kynnast þessum hugmyndum betur, og átta sig á hvernig hver braut mun líta út frá „nýju sjónarhorni.“ (Vegna þessara breytinga verður árangur á mótinu að sjálfsögðu ekki reiknaður til breytinga á forgjöf þátttakenda.) 

Það verður einnig gerð sú breyting að veitt verða verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sæti í blönduðum flokki, þ.e. karla og kvenna saman. Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir lengsta teighögg á 3. braut og nándarverðlaun á 5. og 8. braut.

Ræst verður út á öllum teigum klukkan 11:00.

Verð: 6.000 kr. (golf + grill)

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á þetta síðasta mót sumarsins, og mega gjarna taka með sér gesti til að gera sér glaðan dag saman undir lok golfsumarsins!

Sjáumst á vellinum,

Með bestu golfkveðjum,
Stjórn Dalbúa.