Kæru Dalbúar

Kæru Dalbúar
Það er ekki margt sem minnir á sumarið síðustu dagana – snjóbylur, kuldi og rok – minnir örlítið meira á febrúar en maí. En samkvæmt almanakinu er komið sumar og því ber að fagna, og vonandi er ekki langt í að við getum farið að spila á vellinum okkar góða og átt þar glaðan dag. 

Heimasíðan hefur að mestu legið niðri í vetur vegna tæknilegra vandamála hjá þeim sem hýsti síðuna, en er nú smám saman að komast í gagnið. Við munum bæta efni inn á hana á næstu vikum – mótaskrá, fréttum og upplýsingum – eftir því sem kostur er, þannig að hún geti þjónað okkur öllum sem best í sumar.

Eftir viðræður við nokkra aðila um rekstur vallarins í  sumar hefur niðurstaðan orðið sú að semja við tvo unga menn búsetta í Miðdal um að taka að sér umsjón með vellinum, þ.e. slátt og annað sem snýr að því verkefni, og verður gengið frá samningi þar að lútandi á næstu dögum. Þeir eru vanir vélavinnu og slætti og við höfum fulla trú á að þeir muni reynast okkur vel.

Eftir vandlega umhugsun hefur undirrituð ákveðið að sjá um golfskálann í sumar, þannig að gestir og gangandi verði hvorki svangir né þyrstir þegar þeir heimsækja golfvöllinn okkar. Það er mér mikið tilhlökkunarefni að takast á við þetta verkefni, og vonast ég eftir góðu samstarfi við félagsmenn til að það takist sem best.

Ýmislegt þarf að gera á vellinum nú í byrjun sumars eins og venjulega, t.d. að sópa flatir, sanda, setja út tunnur, teigmerkingar o.s.frv. Við viljum því boða til vinnudags og væri mikil hjálp í því að sem flestir félagsmenn gætu mætt og hjálpað til við vorverkin. Vinnudagurinn verður þann 19. maí og mun hefjast klukkan 10. Eftir skiplagða vinnu er ætlunin að grilla og rabba saman, og einnig væri gaman að spila saman eins og fjórar holur svona rétt til að koma okkur í gang.

– Til að auðvelda okkur skipulagið væri gott ef þeir sem sjá sér fært að mæta sendi undirritaðri línu til að láta vita af sér – en vonandi sjáumst við sem flest.

Í lokin vil ég minna þá sem enn eiga eftir að greiða félagsgjöldin á að gjalddagi síðustu greiðslunnar af þremur er 10. maí. Einnig er rétt að benda þeim sem þurfa að endurnýja Fontana kortin sín eða vilja fá árskort/fjölskyldukort á kjörum golfklúbbsins á að hafa samband við okkur í GD.

Kær kveðja og hlakka til að sjá ykkur annaðhvort á vinnudeginum eða í sumar,

Bryndís Scheving, formaður GD