Fréttir af klúbbnum

Ágætu Dalbúar,

Nú fer nýtt golfsumar að nálgast, þrátt fyrir risjótta tíð um stundir, og því vert að huga að því sem framundan er hjá klúbbnum okkar.

Það ber auðvitað hæst að á þessu sumri verða þrjátíu ár liðin frá því að klúbburinn okkar var stofnaður, og er fyrirhugað að halda upp á þau tímamót með ýmsum hætti. Þá eru ýmsar framkvæmdir í bígerð; nú er hafinn undirbúningur að stækkun á flötinni á 9. braut, þá er fyrirhugað að breyta upphafshluta 1. brautar þannig að hún verði að hluta leikin í brekkunni neðan núverandi brautarstæðis. Einnig er stefnt að því að allur kargi milli brauta verði sleginn niður í leikhæð, sem ekki hefur verið reyndin síðustu ár. Loks er fyrirhugað að sameina flatir 4. og 7. brautar, sem liggja nánast saman, og gera þannig stóra tvöfalda flöt fyrir báðar brautirnar, líkt og sjá má á ýmsum golfvöllum.

Á síðasta ári voru kynntar hugmyndir um tvöföldun teiga á öllum brautum þannig að hægt yrði að leika völlinn sem 18 holu völl (sbr. tvöfalda teiga á Setbergsvelli í Hafnarfirði). Að loknu sumri komst stjórn og aðalfundur þó að þeirri niðurstöðu að fresta yrði slíkum verkefnum því mikilvægasta fjárfesting þessa árs yrði að vera í nýrri kargasláttuvél, þar sem sú sem hefur verið notuð var á síðasta snúning sumarið sem leið. Nú er unnið að kaupum slíkrar vélar, og stefnt að því að hún verði komin í þjónustu klúbbsins fyrir vorið.

Allir sem léku völlinn á síðast sumri voru sammála um að þrátt fyrir erfiðan vetur og vor hafi tekist að koma vellinum í mjög gott form, einkum þegar leið á sumarið, og vöxtur tók við sér eftir hart vor. Mikil ánægja var með umsjón Anthony Karls Flores og félaga hans, einkum Eyjólfs Óla Jónssonar, með vellinum á liðnu ári, og mikið fagnaðarefni að hann mun halda áfram að hafa umsjón með vellinum á komandi sumri.

– Þá mun ég undirrituð halda áfram að annast rekstur skálans líkt og síðasta sumar, og hlakka til að sjá ykkur í Miðdal og þiggja kaffisopa fyrir eða eftir góðan hring á vellinum.  

Rekstrarstaða klúbbsins hefur verið þröng undanfarin ár, en batnaði nokkuð á síðasta ári, og hefur klúbburinn því átt fyrir útgjöldum vetrarins (hita- og rafmagnskostnaði o.fl.) og til undirbúnings vorverkanna. Í ljósi stöðunnar var ákveðið á aðalfundi Dalbúa 29. nóvember sl. að hafa félagsgjöldin á þessu afmælisári óbreytt frá liðnu ári. Sjá má hver gjöldin eru inn á vefsíðu klúbbsins (www.dalbui.is), en gjaldið fer eftir þeim leiðum sem valdar eru (almennt félagsgjald, hjónagjald o.s.frv.). Innheimtan verður með sama sniði og á síðasta ári, og verða gjalddagar nú þrír og dreifast á 1. apríl, 1. maí og 20. maí. Verða greiðsluseðlar vegna félagsgjaldsins settir inn í heimabanka félaga í Dalbúa á næstunni, og er miðað við gjöld síðasta árs við niðurröðun, t.d. að tekið sé tillit til þess þegar félagar eru með annan golfklúbb sem aðalklúbb. Ef einhverjar misfellur verða á þessu er félögum bent á að snúa sér til gjaldkera, Eiríks Þorlákssonar (thorlakssone@gmail.com) og verður greiðsla síðasta gjalddaga þá leiðrétt eins og við á.

Í ljósi reynslu síðustu ára og þess að um afmælisár er að ræða stefnir stjórnin að því að golfmót sumarsins verði með örlítið breyttu sniði og vonandi „félagavænni“. Rætt hefur verið um að breyta fyrirkomulagi einhverra móta, en sú hugmynd hefur m.a. komið upp að hafa sum þeirrra 9-13 holu mót. Félagar hafa verið að kalla eftir fjölbreyttara fyrirkomulagi og getur það orðið skemmtileg nýbreytni hjá okkur.

Þá ber að nefna að endurskoðaðar golfreglur gengu í gildi 1. janúar 2019, og fela þær í sér talsverðar breytingar frá því sem verið hefur, eins og mörg ykkar hafið eflaust tekið eftir. Stefnt er að því að bjóða upp á fræðslufund eða námskeið fyrir félagsmenn vegna hinna nýju reglna við upphaf golfsumarsins, og verður það kynnt nánar síðar.

Ég hlakka til að starfa með ykkur á komandi afmælisári og hvet ykkur til að láta í ykkur heyra; nú þegar vetur er að síga á seinni hlutann má reikna með að margir séu farnir að hugsa sér til hreyfings og munda kylfurnar að nýju.

Kær kveðja,
Bryndís Scheving
formaður stjórnar.