Opna Laugarvatns Fontana mótið 2019

Opna Laugarvatns Fontana mótið

27. júlí. laugardagur klukkan 10 – Opna Laugarvatns Fontana mótið- punktamót – 18 holur

Upplýsingar

Þá er komið að einu skemmtilegasta móti sumarsins í samstarfi við einn af aðalstyrktaraðilum Dalbúa, Laugarvatn Fontana. Keppt verður í punktakeppni karla og kvenna með forgjöf. Hámarksleikforgjöf karla verður 24 og hámarksleikforgjöf kvenna 28. 

Mótið hefst kl. 10:00 stundvíslega og verður ræst út af öllum teigum. Keppendur eru beðnir um að skrá sig á netinu og mæta tímanlega á keppnisdegi. 

ATH: Keppendur sem vilja spila saman í holli eru beðnir um að skrá sig saman á rástíma en munið að rástíminn er einungis til skráningar.

Veglegir vinningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin bæði í karla- og kvennaflokki í boði Laugarvatn Fontana, auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir lengsta upphafshögg karla og kvenna á valinni braut og næst holu á par 3 brautum vallarins.

Verðlaun í karla- og kvennaflokkum:

1. verðlaun: Fjölskyldukort í Laugarvatn Fontana, gildir í eitt ár fyrir tvo fullorðna og fjögur börn.

2. verðlaun: Einstaklingskort í Laugarvatn Fontana, gildir í eitt ár.

3. verðlaun: 6 miða kort í Laugarvatn Fontana.

Verð: 4.500.- 

Skraning á www.golf.is

Kvennamót 2019 úrslit og myndir

Kvennamót Dalbúa var haldið laugardaginn 20. júlí í alveg frábæru veðri. Sólin skein glatt og hitinn var 23 gráður. Konur höfðu á orði að það þyrfti nú ekkert að fara til Spánar, þetta væri bara betra en það. 

Eins og undanfarin ár voru veglegir vinningar frá Lavera (K. Kjartansson) og einnig voru teiggjafir frá Lavera. Þessar snyrtivörur eru lífrænt vottaðar og afar góðar.

Konur skemmtu sér vel í skemmtilegu 9 holu móti, mikið talað og hlegið! Súpa og brauðbollur runnu ljúft niður að leik loknum sem konur snæddu úti á palli.

Vinningshafar eru:

  1. sæti: Inga Dóra Konráðsdóttir
  2. sæti: Guðbjörg Ingólfsdóttir
  3. sæti: Vilborg Teitsdóttir

Lengsta teighögg á 3. braut:  Jóna Hjálmarsdóttir

Golfklúbburinn Dalbúi þakkar þeim konum sem tóku þátt í mótinu fyrir mjög góðan dag!

Hér eru myndir frá deginum.

Barna golfnámskeið

Barna golfnámskeið var haldið hjá okkur laugardag og sunnudag undir stjórn Önnu Díu Erlingsdóttur íþróttakennara. Áhugasamir og duglegir krakkar tóku þátt og lærðu heilmargt um golfíþróttina. Kennslunni lauk með 4 holu móti ⛳️

Meistaramót 2019 – myndir

Meistaramót

Meistaramót Dalbúa var haldið í blíðskaparveðri og góðum félagsskap! Klúbbmeistarar þetta árið eru hjónin Böðvar Þórisson og Petrína Freyja Sigurðardóttir. Óskum við þeim innilega til hamingju með titlana.

Golfnámskeið – Golfnámskeið ⛳️

Golfklúbburinn Dalbúi í Miðdal verður með golfnámskeið fyrir börn í sumar. Námskeiðið verður í tvo daga, laugardaginn 13. júlí klukkan 10.00 – 13.00 og sunnudaginn 14 .júlí klukkan 10.00- 13.00. Seinni daginn verður mót hjá þátttakendum þar sem spilaðar verða 4 holur.

Verð: 2.000.- Innifalið í námskeiðinu er nesti og grillaðar pylsur á lokadeginum.

Þeir sem eiga golfkylfur mega gjarnan koma með þær en golfklúbburinn á nokkur barna golfsett sem hægt er að fá lánuð.

Munið að koma klædd eftir veðri 😊

Kennari á námskeiðinu er Anna Día Erlingsdóttir, íþróttakennari og reyndur golfleiðbeinandi.

Nánari upplýsingar og skráning hjá Bryndísi Scheving, formanni GD í síma 8628995 eða á netfanginu: bryndisscheving@gmail.com

Jónsmessumót 2019 – úrslit

Sigurverar Jónsmessumóts Dalbúa 2019

Jónsmessumót GD fór fram í blíðskaparveðri 22. júní, og lék góður hópur félagsmanna og gesta 18 holur eftir Greensome-fyrirkomulagi.

Reyndist mótið hin besta skemmtun fyrir þátttakendur, sem nutu sín vel við góðar aðstæður, þar sem völlurinn var í prýðilegu standi, og veðrið hlýtt og gott.

Sigurvegarar í mótinu voru þeir Oddgeir Sæmundsson og Ragnar Þórisson; í öðru sæti Guðríður Pálsdóttir og Viktor S. Guðbjörnsson; í þriðja sæti Hlöðver Jóhannsson og Jónína Jónsdóttir. Þeir Oddgeir og Ragnar hlutu m.a. í verðlaun veglega skildi sem Hrafn Jónsson, félagsmaður GD, hafði hannað sérstaklega fyrir mótið.

Jónsmessumót

Laugardagur 22. júní

Fyrirkomulag Greensome -18 holur.
Það er komið að hinu stórskemmtilega Jónsmessumóti Dalbúa. Við bregðum út af vananum að þessu sinni og spilum 18 holu Greensome. Þetta er skemmtilegur og léttur leikur sem fer þannig fram að tveir spila saman í liði, báðir slá upphafshögg og er betri boltinn leikinn. Sá sem átti verri boltann í upphafshögginu slær betri boltann, við næsta högg slær sá sem átti betri boltann í upphafi og svo koll af kolli. Þetta er hraður leikur en fjörugur.

Við lofum skemmtilegu móti í frábærum félagsskap!
Ræst verður út af öllum teigum stundvíslega klukkan 10.
ATH: Keppendur sem vilja spila saman í holli eru beðnir um að skrá sig saman á rástíma en munið að rástíminn er einungis til skráningar.
Skráning á golf.is
Verð: 3.000.-

Sól og gleði

Hér er 12 stiga hiti enn sem komið er og fer hækkandi. Völlurinn alveg frábær og kátir kylfingar að leika sér. Verið velkomin 😁