Ágætu Dalbúar,
Eins og ykkur er kunnugt um var afmælismót Dalbúa haldið 17. ágúst sl. í tilefni þess að liðin eru þrjátíu ár frá því að klúbburinn okkar var stofnaður. Leikin var 18 holu punktakeppni með fullri forgjöf, og var ræst út af öllum teigum samtímis kl. 11.00.
Þátttaka í mótinu var meiri en hefur verið í öðrum mótum sumarsins, og voru tveir ráshópar ræstir af stað á flestum brautum, en alls voru tæplega 60 keppendur skráðir til leiks. Sigurvegarar í keppninni voru þau Þórður Heiðar Jónsson í karlaflokki og Guðríður Pálsdóttir í kvennaflokki, og óskum við þeim til hamingju með sigurinn.
Að kvöldi keppnisdags var síðan efnt til afmælisveislu, þar boðið var upp á grill og meðlæti, og keppendur og aðrir góðir gestir skemmtu sér ágætlega. Nokkrir félaga okkar voru heiðraðrir með silfurmerki félagsins fyrir gott starf fyrir klúbbinn í gegnum árin, og umsjónarmönnum vallarins voru veitt sérstök starfsmerki sem sérstaka viðurkenningu fyrir hversu vel hefur tekist til við völlinn síðustu tvö sumur. Klúbbnum bárust einnig góðar gjafir frá helstu styrktaraðilum okkar (Grafíu, RSÍ og VM) sem verða nýttar til að efla starfið enn frekar á komandi árum.
– Var mikil ánægja með fagnaðinn og góður hugur í félagsmönnum.
Nú er komið að næsta móti sumarsins í Miðdal, en það er Styrktarmót Símans og Dalbúa, sen haldið hefur verið árlega um langt skeið, en allur ágóði af því rennur til uppbyggingar á vellinum í Miðdal og til að styrkja starfsemi klúbbsins. Keppt er um veglega vinninga sem Síminn leggur til motsins. Leikformið er Texas og ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00 og eru keppendur beðnir að skrá liðið saman á rástíma (skráning rástíma er þó að eins til skráningar, þar sem allir verða ræstir út á sama tíma).
– Allir keppendur fá teiggjöf fyrir mót og hamborgara að hætti hússins að móti loknu í boði Good Burger.
Við viljum hvetja sem flesta félagsmenn til að taka þátt í þessu skemmtilega móti á vellinum okkar í Miðdal, en að því loknu er aðeins eitt mót eftir á sumrinu, þ.e. lokamót Dalbúa, sem haldið verður 14. september.
Sjáumst á vellinum
Með bestu golfkveðjum,
Stjórn Dalbúa.