Þá er komið að hinu stórglæsilega Styrktarmóti Danco.
Leikfyrirkomulag Texas Scramble eru tveir saman í liði.Forgjöf liða reiknast sem samanlögð vallarforgjöf liðs,deilt með 2,5. Leikforgjöf liðsins er þó aldrei hærri en leikforgjöf þess með lægri vallarforgjöfina. Báðir leikmenn verða að eiga amk. 4 teighögg.
Annaðhvort er hægt að skrá lið, eða skrá sig sem einstakling, og svo mun mótsnefnd raða saman stökum leikmönnum í lið.
Ræst verður af öllum teigum kl: 10:00Lokað fyrir skráningu föstudaginn 29. ágúst kl. 20:00.
Á nýliðnu Íslandsmóti 5. deildar karla sem fram fór hjá okkur á Dalbúa 15. – 17 ágúst sigraði lið Dalbúa mótið þannig að við erum Íslandsmeistarar 5. deildar og munum þá leika í 4. deild á næsta ári. Virkilega vel gert hjá okkar mönnum sem spiluðu frábærlega.
Alls voru 7 golfklúbbar sem tóku þátt en það voru Golfklúbbur Sandgerðis, Golfklúbbur Hornafjarðar, Golfklúbburinn Hamar Dalvík, Golfklúbbur Álftaness, Golfklúbbur Siglufjarðar, Golfklúbbur Fjarðabyggðar og svo okkar menn í Dalbúa. Lið Dalbúa var skipað þeim Antony Karl Flores, Eyjólfi Óla Jónssyni, Magnúsi Gauts Gíslasonar, Jóni Gunnarssyni, Árna Guðnasyni og Janusz Pawel Duszak. Júlíus Símon Pálsson var svo liðstjóri liðsins. Okkar menn sigruðu lið Golfklúbbs Hornafjarðar í úrslitaleiknum. Golfklúbbur Hornafjarðar endaði í öðru sæti og lið Golfklúbbs Álftaness varð í þriðja sæti.
Við erum stolt af okkar mönnum og þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framgöngu og þökkum sjálfboðaliðum klúbbsins okkar fyrir óeigingjarnt starf til þess að gera þetta Íslandsmót eins glæsilegt og það varð. Við þökkum sömuleiðis keppendum liðanna sem til okkar komu.
Við munum á næstunni deila myndum og fleiru eftir Íslandsmótið.
Okkar frábæru liðsmenn í Íslandsmótinu unnu mótherja sína í dag þannig að þeir munu spila til úrslita í mótinu á morgun. Við höfum tröllatrú á okkar mönnum.
Það væri frábært að sjá ykkur í skálanum á morgun til þess að styðja við okkar menn og samfagna með þeim fyrir frábæran árangur núna um helgina.
Fyrstu holl verða ræst út á morgun kl. 9:00 og úrslitaleikurinn hefst kl. 10:00.
Á Fontana móti Dalbúa síðustu helgi afhenti Eiríkur Þorláksson félagi okkar Jóni Gunnarssyni verðlaunagrip sem hann átti í klúbbhúsinu fyrir framfararverðlaun sem veitt voru árlega fyrir nokkrum árum síðan. Jón Gunnarsson mun spila fyrir okkar hönd í Íslandsmóti 5. deildar næstu helgi. Mótið fer fram hjá okkur á Dalbúa.
Hugmyndin að framfaraverðlaunum Golfklúbbsins Dalbúa var sú að verðlauna árlega þann félagsmann sem hafði sýnt mestar framfarir á tilteknu golftímabili, þ.e. hverju ári fyrir sig. Þá var tekið yfirlit yfir stöðu forgjafar hjá hverjum og einum félagsmanni í upphafi árs, og síðan aftur að lokinni golfvertíð (miðað var við 1. október) og framfarir innan ársins reiknaðar samkvæmt ákveðinni formúlu var heimatilbúin, en talin endurspegla nokkuð vel erfiðleikastuðul þeirrar lækkunar sem um var að ræða hverju sinni (t.d. væri erfiðara að lækka úr 20 í 10 en úr 30 í 20, erfiðara væri að lækka úr 10 í 5 heldur en úr 15 í 10 o.s.frv.).
Framfaraverðlaun GD voru veitt í sex ár samfleytt, frá 2011 til 2016, og öll árin voru það unglingar innan klúbbsins, sem hlutu viðurkenningu hvers árs fyrir sig.
2011 Bragi Arnarson (f. 1997, þá 14 ára)
2012 Kristófer Dagur Sigurðsson (f. 1998, þá 13 ára)
2013 Kristófer Dagur Sigurðsson (f. 1998, þá 14 ára)
2014 Jón Gunnarsson (f. 2001, þá 13 ára)
2015 Jón Gunnarsson (f. 2001, þá 14 ára)
2016 Jón Gunnarsson (f. 2001, þá 15 ára)
– Á þessum þremur árum lækkaði forgjöfin hjá Jóni samtals úr 12,4 í 5,2.
Bikarinn sem Jón fékk afhentan á laugardag hafði verið veittur fyrir árið 2015, en hafði einhverra hluta vegna ekki áður verið afhentur en sat í hillu í klúbbhúsi GD.
Næsta mánudag, 7. júlí, reiknum við með því að grafa fyrir og setja niður vatnslagnir við grínin hjá okkur. Stefnt er að því að klára hvert grín fyrir sig og fara yfir á það næsta.
Það er von okkar að þetta trufli golfara ekki en þið megið gjarnan vinka þeim sem sinna þessu fyrir okkur og þakka þeim fyrir þeirra störf.
Okkur og vallarnefnd vantar nokkrar vinnufúsar hendur til þess að klára þetta verk á sem skemmstum tíma og biðjum við ykkur sem hafið tök á því um það að vera í sambandi við Harald Ólafsson formann vallarnefndar um það í síma 664 0370.
Við minnum svo á meistaramótið okkar sem hefst á morgun föstudag kl. 14:00.
Við á Dalbúa hófum sumarstarfið okkar föstudaginn 16. maí og var fjölmenni á vellinum alla helgina. Það er frábært að geta opnað völlinn á þessum tíma en fulltrúar vallarnefndar og stjórnar og nýr vallarstjóri hafa verið að vinna í vellinum og er hann mjög góður í upphafi sumars.
Pallurinn við skálann hjá okkur var vel setinn en Guðbjörg, Björg, Klara Lísa og Jóna stóðu vaktina í skálanum og var nóg að gera hjá þeim að taka á móti glöðum kylfingum. Sigga Dóra okkar var búinn að undirbúa allt til þess að taka á móti gestum vallarins og öðrum.
Takk kærlega fyrir komuna og gleðilegt golf sumar.