Frá formanni
Kæru félagsmenn, gleðilegt sumar!
Það styttist í opnun vallarins og verður að segjast eins og er að völlurinn kemur mjög vel undan vetri, enda veturinn búinn að vera nokkuð mildur. Vinnudagur er orðin fastur liður á vorin hjá GD en hann er að þessu sinni fyrirhugaður þann 8.maí. Við hefjum daginn klukkan 10:00. Vallarnefndin útdeilir verkefnum sem eru margvísleg að vanda; sanda flatir, setja út tunnur, reisa við bekki, setja út merkingar, hreinsa glompur, gróðursetja og ýmis önnur verk sem nefndin telur mikilvægt vinna. Vonumst við að sjá ykkur sem flest þennan dag en þess má geta að á vinnudeginum í fyrra var met mæting og voru verkin unnin af miklum dugnaði og móð. Við þökkum öllum þeim sem komu þá og lögðu okkur lið. Að vinnudegi loknum verða hamborgarar og drykkir í boði.
Í vor verður tekin upp rástímaskráning hjá okkur í GD. Þetta er fyrirkomulag sem all flestir golfklúbbar eru með og að sögn afar ánægðir með. Félagsmenn munu geta skráð sig með allt að 4 daga fyrirvara en aðrir kylfingar geta pantað með tveggja daga fyrirvara. Það er því um að gera fyrir félagsmenn að kynna sér betur golfboxið og alla þá möguleika sem það býður upp á. Þeir sem mæta án þess að vera skráðir þurfa að bíða ef einhver er skráður á rástíma, því rástímaskráning hefur forgang. Kúlustandurinn verður fjarlægður þar sem hann er nú orðinn barn síns tíma. Ef einhver er í vafa hvernig á að skrá sig erum við í stjórn GD boðin og búin að leiðbeina eftir bestu getu.
Hlökkum til að sjá ykkur á vinnudeginum.
Bestu kveðjur,
Bryndís