Tvöföldun teiga

Ágætu Dalbúar,

Eins og áður hefur komið fram er stefnt að því að breyta vellinum okkar í Miðdal með því að tvöfalda teiga við allar brautir, þannig að það verði hægt að spila völlinn sem 18 holu völl í framtíðinni. Til að gera þetta mögulegt þarf að byggja nýja teiga, sem bjóða í öllum tilvikum upp á að spila megi viðkomandi brautir með öðrum hætti en nú er. Hugmyndin er að hinir nýju teigar verði almennt framar en núverandi teigar (og stytti þar með brautirnar) en í öðrum tilvikum nokkru til hliðar við núverandi höggstefnu; loks verði byggðir sameiginlegir stórir teigar fyrir báðar par 3 brautirnar. Í öllum tilvikum ætti völlurinn að vera auðveldari viðureignar þegar upphafshögg verða slegin frá hinum nýju teigum.

Nú hafa verið reknir niður hælar á viðeigandi staði á vellinum til að merkja fyrir þeim teigum sem fyrirhugað er að byggja, og stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist nú síðsumars.

Félagsmönnum og öðrum sem leika völlinn næstu vikur er hér með bent á að skoða þessar fyrirhuguðu staðsetningar hinna nýju teiga, og endilega koma áleiðis til stjórnar mögulegum ábendingum um breytingar á fyrirliggjandi tillögum, ef mönnum sýnist svo. Hægt er að senda tölvupóst á dalbui@dalbui.is, gera athugasemdir hér á heimasíðunni eða á Facebook.

Stefnt er að því að hægt verði að taka hina nýju teiga í notkun á 30 ára afmælisári klúbbsins, þ.e. næsta sumar.

Jafnframt er vakin athygli á hugmyndum stækkun flatarinnar við 9. braut, sem gæti gjörbreytt því hvernig kylfingar reyna að nálgast takmarkið þar, þ.e. að ljúka leik með því að koma kúlunni til skila í holu hverju sinni.